Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sviku loforð og skuldbindingar
Miðvikudagur 16. júlí 2003 kl. 10:42

Sviku loforð og skuldbindingar

"Bandaríkjamenn standa ekki við loforð sín og skuldbindingar. Ég trúi þessu varla," segir Bragi Steinarsson vararíkisaksóknari. Hann segir að eitt af skilyrðunum fyrir því að maðurinn hafi verið afhentur hafi verið að hann yrði í gæsluvarðhaldi. Gengju Bandaríkjamenn ekki að því hefði átt að færa hann aftur á Litla-Hraun. Þeir verði nú að afhenda manninn aftur eða bæta úr vörslunni."Við lýstum yfir áhyggjum okkar við sendiherra Bandaríkjanna vegna gruns um að varnarliðsmaðurinn sé ekki undir nægilegu og staðgóðu eftirliti," segir Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, um tilgang fundar sem ráðuneytið boðaði sendiherrann á fyrir hádegi í gær.

Varnarliðsmaðurinn hefur gengið lausum hala innan varnarsvæðis hersins en ekki verið í gæsluvarðhaldi eins og til var ætlast þegar hann var afhentur hernum.

Bragi Steinarsson segir lausagöngu mannsins vel hafa getað spillt fyrir rannsókn málsins.

"Fjögur vitni eru á vellinum. Þau átti að yfirheyra á meðan maðurinn væri í gæsluvarðhaldi."

Gunnar Snorri segir vörslu varnarliðsmannsins ekki vera nægilega miðað við íslenska staðla í svipuðum tilvikum. Öðruvísi sé litið á gæsluvarðhald hjá varnarliðinu en á Íslandi. Sendiherrann hafi lofað að taka þetta til athugunar og koma sjónarmiðum utanríkisráðuneytisins á framfæri. Samsvarandi sjónarmiðum hafi verið komið til aðmírálsins.

"Því hefur verið komið til skila að þetta sé ekki æskilegur framgangur. Við teljum fulla ástæðu til að hafa manninn í betri vörslu en þetta." Hann segir Bandaríkjamenn telja að íslensk stjórnvöld standi ekki við gerða samninga hvað varði lögsöguna. Þeir segi fyrirkomulag vörslu smáatriði í því samhengi. Þeir leggi áherslu á að þeir séu ábyrgir fyrir því að maðurinn valdi hvorki öðrum né sjálfum sér skaða. Snúist þetta lítið um líðan mannsins og sé hann samkvæmt bandarískum lögum saklaus uns sekt er sönnuð og dómur fallinn. Gunnar Snorri segir skilyrði hafa verið sett og ætlast sé til að staðið sé við þau.

"Í þessu máli erum við sömu skoðunar og ríkissaksóknari, að varslan eigi að vera haldbetri. Við vonumst til að það verði tekið til athugunar og erum búnir að koma því eins skýrt á framfæri eins og við getum. Hvenær við fáum svar verður að koma í ljós."

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins, segir að það geti verið erfitt fyrir Bandaríkjamenn að framfylgja íslenskum lögum er þau stangist á við þeirra eigin lög.

[email protected]

Frétt af Vísi.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024