„Svikamyllan var ekki afhjúpuð fyrr en síðar“
- Þetta var vissulega högg, segir framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs
Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, tjáir sig um fjárfestingu lífeyrissjóðsins í kísilveri United Silicon í samtali við vefinn Lífeyrismál.is, sem er upplýsingavefur um lífeyrismál. Í viðtalinu er sjónvarpsþátturinn Kveikur til umfjöllunar þar sem brá fyrir myndum af kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík og vísað til hennar sem mislukkaðrar fjárfestingar lífeyrissjóða. Festa lagði fjármuni í verksmiðjuna og Gylfi segir að málið sé líklega hið erfiðasta sem á hans borð hafi komið í framkvæmdastjóratíð sinni.
„Eðlilegt og sjálfsagt að þú spyrjir um United Silicon. Ég læt duga að stikla á mjög stóru um þann lærdóm sem við höfum dregið af því sem hér gerðist.
Eftir á að hyggja voru vinnubrögð Festu við undirbúning fjárfestingar í þessari starfsemi tiltölulega vönduð. Verkefnið naut gríðarmikils stuðnings opinberra aðila, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Mjög var kallað eftir aðkomu okkar í heimabyggðinni, eftirlitsstofnanir veittu rekstrarleyfi og jákvæðar umsagnir. Sjálft viðskiptamódelið var áhugavert fyrir sjóðinn.
Arion banki lagði mikið undir og öflugt hollenskt fyrirtæki, Bit Fondel, sömuleiðis. Við horfðum meðal annars til þessa. Fjallað var um málið á sex stjórnarfundum Festu 2014 og við keyptum viðbótargreiningu til að staðreyna kostnaðaráætlun áður en samþykkt var erindi um skuldabréfakaup, ígildi víkjandi láns á háum vöxtum. Skuldabréfið var í evrum en hafa ber í huga að á þessum tíma voru gjaldeyrishöft í gildi á landinu. Seðlabanki Íslands veitti jafnframt undanþágu frá þessum höftum.
Síðar kom á daginn að verulega skorti á þátt undirbúnings verkefnisins sem sneri að því að kanna bakgrunn og sögu drifkraftsins og lykilmannsins sem síðar varð forstjóri United Silicon. Þar kom við sögu maður með einbeittan brotavilja. Svikamyllan var ekki afhjúpuð fyrr en síðar, eftir að félagið var í raun komið í þrot.
Festa lífeyrissjóður afskrifaði verulega fjármuni vegna United Silicon. En eignir sjóðsins eru vel dreifðar og afkoma sjóðsins var mjög góð á árinu 2017. Hrein raunávöxtun eigna var 5,3% en hefði orðið um 6% ef ekki hefði komið til afskriftar þessarar fjárfestingar.
Þetta var vissulega högg en málið var á margan hátt sérstakt eða jafnvel einstakt. Við hjá Festu erum alla vega dýrkeyptri reynslu ríkari,“ segir Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, í viðtalinu.