Svikalogn um hádegi en talsverður hvellur í dag
Á milli kl. 14 og 15 brestur hann á með V og SV 18-25 m/s suðvestan- og síðar vestanlands. Krapahríð fyrst í stað á láglendi, en síðan hríðarkóf. Það versta verður yfirstaðið undir kvöldið, segir í ábendingu veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar í morgun.
Gul viðvörun fyrir Faxaflóa:
Suðvestan 15-25 m/s og él. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Éljagangur og lélegt skyggni, erfið akstursskilyrði.
Lægðin sem veldur veðrinu var fyrr í morgun djúpt suður af Reykjanesi, um 943 hPa, og á leið til norðurs og enn heldur dýpkandi, segir á veðurvefnum blika.is. Meginskilin voru komin norður um land og þar snjór og bleytusnjór. Hins vegar hlánar á eftir þeim og gerir hálfgert „svikalogn“ yfir hádegið hér suðvestantil.
Í ábendingum veðurfræðings segir að íbúar suðvestanlands og austur með suðurströndinni sem og í Borgarfirði og víðar vestanlands búi sig undir talsverðan hvell eftir hádegi. Það versta vari ekki í nema 2-3 klst. en áfram verða dimm él, hvasst og skafrenningur.
Mikil röskun verður á flugi en millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst hjá flestum flugfélögum í dag. Um er að ræða 15 flugferðir í dag hjá Icelandair. Þá hefur Icelandair einnig aflýst flugi til og frá landinu í í fyrramálið, alls um 11 brottfarir og því tengt eru ekki komur frá Bandaríkjunum.