Sveittur og taugaveiklaður fíkniefnasali
Lögreglan hafði afskipti af manni á þrítugsaldri um helgina vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Þegar lögreglumenn fóru að ræða við hann varð maðurinn gríðarlega taugaveiklaður og skalf og svitnaði. Hann var spurður hvort hann væri með eitthvað ólöglegt í fórum sínum og fór hann þá í úlpuvasa sinn og sótti fjóra poka af kannabisefni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Ekki minnkaði stressið á manninum þegar lögregla ræddi nánar við hann, enda reyndust ekki öll kurl komin til grafar.
Við húsleit heima hjá honum vísaði hann á kannabispoka sem hann hafði falið í fataskáp, auk þess sem hann var með fíkniefni í krukku í eldhúsinu. Hann játaði að hafa stundað sölu fíkniefna. Lögregla minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja gjaldfrjást og undir nafnleynd, og koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.