Sveitarstjórnir á Suðurnesjum taki yfir heilsugæsluna
Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra vill skoða þann möguleika að sveitarstjórnir á Suðurnesjum taki yfir rekstur heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að því er fram kom í ávarpi ráðherrans á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem nú er haldið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Heilbrigðisráðherra sagði að hann væri ekki að setja þessa hugmynd fram til þess að spara fé, heldur til að auka þjónustuna í heilsugæslu á svæðinu. Ráðherra sagði að hann teldi að sveitarfélögin myndu eflast við að taka yfir reksturinn og hann vill sjá aukna héraðshlutdeild varðandi rekstur heilsugæslunnar.
Sigríður Snæbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kynnti drög að tillögum nefndar sem fjallað hefur um málefni HSS á fundinum og kom m.a. fram í máli hennar að vonast er til að biðtími eftir heilsugæsluþjónustu verði einungis 30 mínútur í framtíðinni. D-álma Heilbrigðisstofnunarinnar var töluvert til umræðu og kom fram á fundinum að lokið verði við hana í árslok árið 2005.
Jón Gunnarsson alþingismaður sem á sæti í stjórn HSS sagði á fundinum að hann teldi nauðsynlegt að nú yrði horft til framtíðar, nóg væri komið að því að horft væri til baka á vanda heilsugæslunnar þar sem endalaust væri verið að reyna að finna einhverja sökudólga. Jón sagði mjög mikilvægt að nú yrði staðið saman að uppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og heilsugæslunnar og kom fram í máli Jóns að hann væri mjög bjartsýnn á framtíð stofnunarinnar.
Konráð Lúðvíksson yfirlæknir HSS sem hefur starfað við stofnunina í 20 ár sagði á fundinum að hann hefði lifað nokkra framkvæmdastjóra HSS, nokkra hjúkrunarforstjóra og nokkra heilbrigðisráðherra þann tíma sem hann hefði starfað á stofnuninni. Konráð sagði á hann hefði aldrei verið eins bjartsýnn og núna um að málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja væru að komast á gott skrið og hrósaði hann núverandi stjórnendum stofnunarinnar fyrir vel unnin störf.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir og verður sérstakur hátíðarkvöldverður í tilefni dagsins að Eldborg í kvöld. Dagskrá aðalfundarins lýkur um kaffileytið í dag, en Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra mun í dag flytja erindi um náttúrverndaráætlanir og svara fyrirspurnum í kjölfarið. Síðan mun Guðbjörg Jóhannsdóttir atvinnuráðgjafi SSS halda erindi um atvinnuráðgjöf á Suðurnesjum.
VF-ljósmynd/Páll Ketilsson: Frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í morgun.