Sveitarfélögin funda með ráðuneytum vegna vaxtar Suðurnesja
Í kjölfar samantektar sem Reykjanesbær lét vinna og kynnti í október sl. ákváðu sveitarfélögin á svæðinu að taka höndum saman og fylgja málinu eftir, sem hófst með því að fundað var með fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Síðan þá hefur verið fundað með mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Á næstunni verður einnig fundað með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í pistli sem hann skrifar í vikulegt fréttabréf sitt úr Vogum.
Auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sitja forsvarsmenn þeirra ríkisstofnana á svæðinu sem í hlut eiga hverju sinni fundina, þar sem farið er yfir stöðuna og vakin athygli á þróuninni á svæðinu og þeim fjárveitingum sem stofnanirnar fá til að reka starfsemi sína.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét fyrr í haust vinna samantekt um fjárframlög ríkisvaldsins til stofnana sinna á Suðurnesjum. Á opnum fundi sem haldinn var þann 19. október sl. var kynnt niðurstaða greiningar á framlögum ríkisins til landshlutans, og er óhætt að segja að niðurstöðurnar hafi verið sláandi. Fólksfjölgun hér á Suðurnesjum er fordæmalaus um þessar mundir, íbúum hefur fjölgað um ríflega 5 þúsund manns á undanförnum 7 – 8 árum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi vexti, ekki síst í ljósi áætlana um aukin fjölda farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á næstu árum, og öllum þeim fjölda nýrra starfa sem munu koma til vegna þess. Slíkum vexti fylgir mikið álag á alla opinbera þjónustu, hvort heldur hún er veitt af sveitarfélögum eða ríkisvaldinu.