Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sveitarfélög á Suðurnesjum sýna Miðneskvóta áhuga
Þriðjudagur 6. janúar 2004 kl. 11:38

Sveitarfélög á Suðurnesjum sýna Miðneskvóta áhuga

-fulltrúar Sandgerðisbæjar funda með Landsbankamönnum á morgun. 

Rætt hefur verið við bæjar- og sveitarstjóra á Suðurnesjum um að sveitarfélög á svæðinu standi saman að viðræðum við Landsbanka Íslands um kaup á svokölluðum Miðnesskvóta og hafa fulltrúar sveitarfélaganna sýnt málinu mikinn áhuga. Miðneskvótinn er í eigu Brims, dótturfélags Eimskipafélags Íslands, en um er að ræða rúm 4.000 tonn í þorskígildum talið. Forystumenn Landsbanka Íslands hafa gefið vilyrði fyrir því að bankinn komi að kaupum á kvótanum með lánveitingu. Á miðvikudag munu fulltrúar Sandgerðisbæjar og Landsbanka Íslands eiga fund þar sem fyrirhuguð sala á Brim verður kynnt fulltrúum bæjarins með formlegum hætti.

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri Sandgerðisbæjar sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri unnið að því að komast að samningaborðinu.
„Við höfum í sjálfu sér ekki gert okkur neinar væntingar um magnið. Aðalatriðið er að komast að samningaborðinu þar sem tekist verður á um þennan kvóta. Meginmálið er að kvótinn fór héðan og á þeim tíma var bæjarfélaginu lofað því að útgerðin myndi frekar aukast héðan en hitt. Það reyndist ekki vera og kvótinn og skipin eru öll farin. Það er mikið atriði fyrir bæjarfélagið að auka kvótann til að reksturinn á höfninni komist aftur í gott horf, en bæjarfélagið er að greiða með hafnarrekstrinum,“ segir Sigurður og bætir því við að hann líti einnig  á að verið sé að skapa fleiri atvinnutækifæri á Suðurnesjum með kaupum á kvótanum.“

Sigurður segir að aðkoma sveitarfélaga á Suðurnesjum um kaup á kvótanum sé grundvallaratriði, því að verið sé að keppa um þennan kvóta fyrir svæðið í heild sinni. „Á milli jóla og nýárs notaði ég tímann og ræddi við bæjarstjóra allra sveitarfélaga á Suðurnesjum og það voru allir einhuga um að taka þátt í þessum viðræðum og styðja við bakið á okkur í þessari baráttu. Það má ekki gleyma því að Miðnes var ekki einungis staðsett hér í Sandgerði, heldur var fyrirtækið einnig með starfsemi í Keflavík og hluti af kvóta fyrirtækisins var merktur Keflavík. Ég vonast til þess að við berum til þess gæfu að landa þessu máli því við megum ekki gleyma því að á Suðurnesjum var rekin öflug útgerð og við viljum tryggja að svo verði áfram.“

Að sögn Sigurðar er nauðsynlegt að auka kvótann á svæðinu fyrir þau fyrirtæki sem eru í fiskvinnslu. Sigurður bendir á að verið sé að segja upp fólki á Keflavíkurflugvelli og að með aukningu á kvóta sé ljóst að fiskvinnslan geti tekið við miklum mannafla sé vel á málum haldið. „Þess vegna er það grundvallaratriði í mínum huga að kanna hvort við fáum þennan kvóta og hvort við sitjum við sama borð og aðrir þegar Brim verður leyst upp. Við vonumst til þess að þær leikreglur sem okkur verða kynntar á miðvikudag verði þannig að við getum tekið þátt í þessu. En við erum ekki að fara að stofna bæjarútgerð. Það er enginn áhugi á því hjá sveitarfélögum hér á Suðurnesjum. Við erum eingöngu að hugsa þetta þannig að kvótinn komi á staðinn og í framhaldinu verði honum deilt út til fyrirtækja á svæðinu,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024