Svartur blettur í bænum - segir bæjarstjórinn í Vogum
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd sendir eigendum númerslausra bíla tóninn og það í annað sinn. Mikill fjöldi bílhræja má sjá í Vogum og bæjarstjórinn er ekki ánægður með það.
Ásgeir fór yfir málið í pistli bæjarstjóra fyrir síðustu helgi sem hljóðar svo:
„Vogar - fallegi bærinn okkar. Við þekkjum mörg þetta heiti, sem prýðir vinsælan Facebook-hóp hér í bænum. Þar er vettvangur til samskipta, upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta. Nafn hópsins er mér hugleikið þessa dagana, nú þegar er hásumar og gróður allur í fullum sumarskrúða. Nemendur vinnuskólans og starfsmenn Umhverfisdeildar hafa ekki slegið slöku við, opin svæði eru vel hirt, götukantar og gangbrautir málaðar og fleira mætti telja. Margir húseigendur hafa tekið til hendinni í sumar, byggt palla og skjólveggi, hellulagt innkeyrslur og almennt snyrt til í kringum sig.
Enn er þó svartur blettur í bænum okkar, er kemur að umgengni. Það er fullt af fólki sem sér ekkert athugavert við það að hrúga upp númerslausum bíldruslum og bílhræjum jafnvel svo tugum skiptir, í og við hús sín og fyrirtæki. Mörg dæmi eru einnig um að íbúar geymi þessi djásn sín inni í görðum sínum, þar sem druslurnar komast ekki lengur fyrir á bílastæðunum við húsin. Heilbrigðiseftirlitið virðist hafa gefist upp í baráttunni, og þá er nú fokið í flest skjól. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tjái mig um þennan blett á samfélaginu okkar. Án efa mun það gerast nú sem fyrr að sjálfskipaðir sérfræðingar í verðmætum og gæslumenn eignarréttar munu rísa upp á afturlappirnar og skammast í bæjarstjóranum fyrir að vera að skipta sér af málum sem honum kemur ekkert við. Það verður þá bara að hafa það. Við sem viljum sjá bæinn okkar fallegan hljótum hins vegar að gera þá kröfu til samborgara okkar að þeir sjái sóma sinn í að hafa snyrtilegt í kringum sig, og taka sig nú á í eitt skipti fyrir öll og fjarlægja þessi verðlausu bíhræ af lóðum sínum og koma þeim á réttan stað þar sem þeim er fargað og eytt. Þetta er ekki flókið. Nú er mikið byggt og margir nýir íbúar eru hér í bænum. Tökum vel á móti þeim með snyrtilegum, bílhræjalausum bæ.“