Svartsengi: Grindvíkingar óska eftir frekari upplýsingum
Ekki hefur farið framhjá neinum orrahríðin í kringum viðskipti Reykjanesbæjar með hluti í HS Orku ehf og HS Veitum ehf og landsvæði í Svartsengi.
Nýjasta útspilið er erindi sem Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindavíkur, hefur sent HS Orku og er birt á heimasíðu bæjarins. Þar spyrst hún m.a. fyrir um ýmis atriði vegna kaupa Reykjanesbæjar á landi við Svartsengi, sem henni þykja óljós, og óskar því eftir viðbótarupplýsingum og frekari skýringum.
Erindi bæjarstjóra fylgir hér á eftir:
Þann 30. júní sl fékk Grindavíkurbær send gögn vegna kaupa Reykjanesbæjar á landi við Svartsengi. Eftir yfirlestur þessara gagna virðast ýmis atriði ekki ljós og því er óskað eftir viðbótarupplýsingum og skýringum þannig að unnt sé að taka málið fyrir.
1. Svo virðist sem afrit gagnanna sem send voru Grindavíkurbæ sé ekki af lokaeintaki þeirra þar sem í hagnýtingarsamning um náttúruauðlindir vantar grein 3.2. Því er óskað eftir því að rétt gögn verði afhent.
2. Í þeim samningaviðræðum sem staðið hafa síðan fyrir áramót hefur verið miðað við 150 hektara svæði í Svartsengi. Nú er hins vegar gert ráð fyrir 63 hektara landi. Óskað er eftir skýringum á þessari breytingu. Þá er einnig ljóst að auðlindin sem verið er að nýta í Svartsengi í dag tilheyrir mun stærra landsvæði en þeim 63 hektörum sem nú er verið að selja. Skýra þarf hvort ætlunin sé að nýtingargjaldið deilist á milli þeirra 63 hektara sem nú er verið að selja og þeirra 87 hektara sem HS Orka hf. heldur eftir.
3. Samkvæmt þeim útreikningum sem kynntir voru af hálfu HS Orku hf. í desember 2008 var gert ráð fyrir að endurgjald fyrir nýtingu á auðlindinni væri 21,7 milljónir kr. Samkvæmt töflu sem Grindavíkurbæ var nú send er endurgjaldið komið yfir 30 milljónir kr. Á þessu þarf að fá útskýringar.
4. Fylgiskjal með útreikningsformúlu sem sent var Grindavíkurbæ á greinilega ekki við um það land sem verið er að bjóða til kaups nema að einungis sé verið að selja 55% af auðlindinni. Væntanlega er það skjal sem sent var útreikningur fyrir það land sem tengist Reykjanesvirkjun. Því er nauðsynlegt að fá rétt eintak af þessari útreikningsformúlu. Einnig væri áhugavert að fá afrit af samningum um nýtingu 45% auðlindarinnar fyrir Reykjanesvirkjun við íslenska ríkið.
5. Í þeim samningaviðræðum sem staðið hafa yfir milli HS Orku hf. og Grindavíkurbæjar frá því í desember 2008 hefur HS Orka gert kröfu um 385 milljónir kr. fyrir 150 hektara lands. Nú er krafist 447 milljónir kr. fyrir 63 hektara lands. Á þessu þarf einnig að fá skýringar.
Ef skýringa er þörf vinsamlegast hafið samband við undirritaða.
Virðingarfyllst,
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri.
VF-mynd/pket