Svanur KE sökk - slökkviliðsmaður blotnaði í fæturnar
Gamall eikarbátur, Svanur KE, sökk við bryggju í Njarðvík í gær. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja hafði verið kallað að bátnum til að dæla úr honum sjó eftir að vegfarandi hafði séð til bátsins ar sem hann var mjög siginn í höfninni. Mikill og óvæntur leki virðist hafa komið að bátnum, því ástandið var eðlilegt þegar báturinn var kannaður í gærmorgun.
Skömmu eftir að slökkviliðið kom á staðinn sökk báturinn. Slökkviliðsmaður sem var um borð í bátnum sökk í sjó upp að hnjám þegar hann losaði annan bát sem var bundinn utan á Svan KE á þeirri stundu þegar Svanur KE var að sökkva. Hann þurfti að vera snar í snúningum við að komast upp á bryggju þegar báturinn var að sökkva eins og sjá má á myndasíðu sem Markús Karl Valsson er með á slóðinni http://krusi.123.is/blog/record/422930/
Reynt verður að ná Svani KE upp af hafsbotni við fyrsta tækifæri svo að megi farga honum á viðeigandi hátt.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson