Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 24. apríl 2002 kl. 11:20

Svanatjarnir þarfnast “andlitslyftingar“

Í kjölfar greinar um svanavatnið á Fitjum sem birtist í Víkurfréttum fyrir viku kom bæjarbúi á skrifstofu Víkurfrétta og vildi koma á framfæri nokkrum athugasemdum. Sagði konan að mikið hefði verið til í því sem Jóhann Sveinsson talaði um í greininni. Það yrði að gera staðinn „vistvænni“ bæði fyrir fuglana sem þar væru og fólkið sem þarna kæmi til að gefa fuglinum og njóta útiverunnar. Á tjörnunum hefur sést til gæsa- og andahópa og svo eru svanir tíðir gestir en þess ber þó að geta að mest er af fuglum á veturna. Talaði hún um það að bæjarstjóri hefði fyrir fjórum árum lofað öllu fögru um lagfæringu á svæðinu en ekkert hefði verið gert. Þarna yrði að hreinsa svæðið enda væri það vægast sagt ógeðslegt. Gott væri ef aðkoman að tjörnunum yrði löguð þannig að auðveldara væri að ganga þar um og ekki myndi skemma fyrir ef einhverjum bekkjum eða sætum yrði komið þar fyrir svo fólk gæti tekið því rólega í náttúrunni. Talaði hún um það að í rigningu væri vart hægt að komast að tjörnunum vegna drullu og yrði fólk að klæðast vaðstígvélum ef það ætlaði sér að gefa fuglunum mat. Mikið væri um að ungt fólk með börn legði leið sína að tjörnunum og því væri nauðsynlegt að lappa upp á svæðið enda gæti þetta orðið vinsælt útivistarsvæði í framtíðinni. Einnig yrði að reyna að útrýma minnk á svæðinu því hann væri einfaldlega að ganga frá fuglinum í tjörnunum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024