Svaf ölvunarsvefni undir stýri með tónlistina í botni
Ökumaður sem lögregla hafði afskipti af fyrir helgi svaf ölvunarsvefni undir stýri í bifreið sinni þegar að var komið. Bifreiðin var í gangi og tónlist í botni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Annar ökumaður sem handtekinn var fyrr í vikunni sem leið vegna ölvunaraksturs var með þriggja ára barn sitt með sér í bifreiðinni. Tilkynning var send á barnavernd.
Í bifreið sem stöðvuð var við hefðbundið eftirlit fundust meint kannabisefni við leit að fenginni heimild. Þrjú ólögráða ungmenni voru í bifreiðinni, ásamt ökumanni, og var haft samband við foreldra þeirra og málið tilkynnt til barnaverndar.
Þá voru fáeinir til viðbótar teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.