Svaf ölvunarsvefni undir stýri
Lögreglunni á Suðurnesjum var um hádegisbil í gær tilkynnt að bifreið hefði verið stöðvuð uppi á gangstétt í Keflavík eftir að henni hefði verið ekið gangstétta á milli og væri hún í hálfgerðum henglum.
Þegar lögregla mætti á staðinn svaf ökumaðurinn ölvunarsvefni í bílnum, en vegfarendur höfðu tekið kveikjuláslykilinn í sína umsjá.
Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann var það ölvaður að ekki var unnt að birta honum handtökuplagg né taka af honum skýrslu. Þegar af honum bráði eftir vist í fangaklefa viðurkenndi hann brot sitt.