Svæðið við Hafnargötu 101 verði þróunarreitur
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga leggur til við bæjarstjórn að svæðið við Hafnargötu 101 í Vogum verði auglýst sem þróunarreitur. Við val á umsækjendum verður sérstaklega horft til þess að hugmyndir um hönnun, skipulag og framkvæmdir taki mið af einkennum, ásýnd og sögu svæðisins og uppbygging styðji við jákvæða atvinnuþróun í ört stækkandi sveitarfélagi, segir í afgreiðslu skipulagsnefndar á síðasta fundi.
Á fundinum voru lögð fram drög að kynningargögnum vegna uppbyggingar og þróunar á lóð Hafnargötu 101. Um þróunarreit er að ræða þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi.
Á sama fundi var tekið fyrir erindi frá Minjastofnun Íslands, sem hefur óskað eftir því að fá að kynna tillögur sínar vegna mögulegrar uppbyggingar og nýtingar á húsi og lóð Hafnargötu 101.
Nefndin þakkar aðilum Minjastofnunar fyrir góða og áhugaverða kynningu.