Súr hvalur á Stafnesi
Íbúar á Stafnesi fengur heldur betur sendingu úr hafinu í þungu brimi sem gerði á dögunum. Risastóru hræi af hval skolaði á land við Stafnesvita. Er hræið komið svo langt upp í fjöruna að engar líkur eru til þess að því skoli út aftur.
Sá sem tilkynnti Víkurfréttum um hvalinn var ekki viss um af hvaða tegund hann væri. Hvort þetta væri búrhvalur væri ekki ljóst en hins vegar var alveg á hreinu að þetta væri súr hvalur!
Virkilega er farið að slá í hræið og ljóst að dýrið var löngu dautt þegar því skolaði upp í fjöruna. Hins vegar er alveg ljóst að dýrið er risastórt eins og meðfylgjandi myndir bera með sér og hugsanlegt að einhver sýni beinagrind þess áhuga.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Hvalurinn er risastór og kominn langt upp í land. Þessu hræi mun ekki skola út í bráð.
Það er „aðeins“ farið að slá í hvalinn, eins og sjá má.
Hvalurinn í fjörunni á Stafnesi.