Súr brunalykt frá kísilveri pirrar bæjarbúa í Reykjanesbæ
— íbúar fylgist með mælingum og kæri til Umhverfisstofnunar, segir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar
Samfélagsmiðlar í Reykjanesbæ loga vegna lyktar sem berst frá kísilveri United Silicon. Í norðanáttinni berst megn reykarlykt frá kísilbræðslunni. Lyktin er súr viðarbrunalykt en tréflís er eitt af þeim hráefnum sem notað er í kísilbræðsluna ásamt kolum.
„Svakalega er vond lykt úti,“ skrifar bæjarbúi í Reykjanesbæ inn á samfélagsmiðilinn Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri.
Í svari við færsluna segir annar bæjarbúi: „Er hægt að bjóða okkur uppá þetta? Vaknaði með svaka hausverk og ógeðslega lykt í loftinu! Held að þessi verksmiðja sé stórhættuleg heilsu allra hér í Reykjanesbæ“.
Íbúi kastar fram spurningu til Eysteins Eyjólfssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, hvað sé hægt aðgera. „Ef einn ofn er í gangi núna, hvernig verður þetta þegar allt verður komið í gang?“
Eysteinn svarar um hæl að fólk fylgist með mælingum á mengun úr Helguvík á síðunni andvari.is og kæri til Umhverfisstofnunar.
Óperusöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson er heimsborgari og hann skrifar: „Reykmettað loftið yfir Keflavík í dag, er það þessi nýja verksmiðja? Guð hjálpi okkur þá!! Þetta er svipað og þegar ég bjó í stórborgum út í heimi áður en ég flutti heim í hreina loftið á Íslandi. …og þetta er bara fyrri svona verksmiðjan!“
Í athugasemdum má lesa: „Skrýtin lykt í hverfinu mínu“, „Angangi brunabræla í Heiðarbakkanum“, „Hvort er þetta verksmiðjan eða jólakjötsreykingin?“, „baneitrað helvíti í ofanálag“ og „Skelfileg lykt, þegar ég fann þetta á Birkiteignum þá velti ég því fyrir mér hvort þetta væri eitthvað eitrað loft“. Þá er einnig skrifað: „Líður eins og ég standi í mikilli umferðarmengun þegar ég fer út úr húsi. Hryllingur!“
„Minni á að enn er hægt að senda inn athugasemdir vegna starfsleyfi fyrir Thorsil sem er seinna Kísilverið sem á að rísa hér í Helguvík ....mæli með því að fólk sendi inn athugasemdir og sérstaklega vegna þess hvernig þetta er orðið í dag en það er ógeðsleg lykt hér daglega vegna United Silicon sem er fyrra Kísilverið sem er komið hér í Helguvíkina …þetta verður eitthvað þegar þessi tvö STÆRSTU kísilverin í heiminum verða komin á sömu torfuna rétt um 1 km frá íbúabyggð! Ráðamenn voru ekki að vinna fyrir heilsu íbúa sinna!,“ er skrifað í annari færslu.
Þá deila netverjar einnig tengli á vef Umhverfisstofnunar þar sem koma má á framfæri athugasemdum.