Sundmiðar barna í Reykjanesbæ hækka ekki á milli ára
- Flest stærstu sveitarfélögin hækka staka miða fullorðinna
Gjald fyrir staka sundferð fyrir fullorðna í Reykjanesbæ hækkaði um 27 prósent á milli áranna 2015 og 2016, eða úr 550 krónum í 700 krónur. Samkvæmt könnun Verðlagseftirlits ASÍ á gjaldskrám sundstaða hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016 hækkuðu 13 þeirra gjald á stökum miða. Hækkunin hjá Sveitarfélaginu Árborg var mest eða um 50 prósent og hjá Reykjavíkurborg um 38 prósent.
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði einnig hve mikið kostar fyrir tvo fullorðna og tvö börn að fara saman í sund hjá 15 stærstu sveitarfélögunum. Kostnaðurinn hjá Reykjanesbæ er 1700 krónur. Ódýrast fyrir fjóra er í sund á Akranesi, 856 krónur en dýrast hjá Sveitarfélaginu Áborg, 2.100 krónur.
Verð á öllum sundferðum fyrir börn stóð í stað á milli ára hjá Reykjanesbæ, stakur miði kostar 150 krónur, tíu miða kort 1.000 krónur og árskort 7.500 krónur.
Meðal 15 stærstu sveitarfélaganna voru 9 sem hækkuðu árskort fullorðinna. Hjá Reykjanesbæ hækkaði árskortið um 3 prósent, úr 25.000 í 25.750 krónur.