Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sundlaugin í Grindavík opnuð aftur á næstu dögum eftir bilun
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 22. apríl 2022 kl. 10:07

Sundlaugin í Grindavík opnuð aftur á næstu dögum eftir bilun

Vonast er til að hægt verði að opna sundlaug Grindavíkur á næstu dögum. Um páskana kom frétt á síðu Grindavíkurbæjar þess efnis að sundlaug bæjarins væri lokuð vegna bilunar. Fyrstu fregnir hermdu að jafnvel yrði hún lokuð í einhverjar vikur. Eggert Sólberg Jónsson, sem er með málið á sinni könnu fyrir hönd Grindavíkurbæjar, sagði að þær fréttir ættu ekki við rök að styðjast og vonandi verði hægt að opna laugina á næstum dögum.

Sundlaugin var vígð í apríl 1994 og var mikil bylting fyrir Grindvíkinga sem höfðu fram að þeim tíma þurft að sætta sig við 12,5 metra poll við grunnskólann. Vel tókst til verka við byggingu sundlaugarinnar og þóttu sundklefarnir einkar vel heppnaðir. Einu sinni hefur verið skipt um dúk í sundlauginni og telst það eðlilegt viðhald en vissulega er sundlaugin, útisvæðið og rennibrautin orðin barn síns tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir liggur að vinna við nýtt deiliskipulag fyrir öll íþróttamannvirki í Grindavík er í gangi og inn í því eru tillögur að innisundlaug og nýrri útisundlaug. Auk þess er þar að finna tillögur að gervigrasvelli fyrir knattspyrnufólk, æfingaraðstöðu fyrir fimleika en þessi deiliskipulagsvinna ætti að klárast á þessu ári og þá verður í höndum nýrrar bæjarstjórnar að taka ákvörðun um forgangsröðun, ekki nema að ráðist verði í allt á sama tíma.

Ef kafað er dýpra í sögu sundlaugar Grindavíkur þá kemur ýmislegt upp úr krafsinu en ákveðinn styr hefur staðið um þessi málefni allar götur síðan nýir sundbúningsklefar voru teknir í notkun árið 2015. Þótti heimafólki illa hafa tekist við hönnun klefanna en t.d. er ekki salernisaðstaða við sturtur svo viðkomandi neyðist til að bleyta svæði þar sem nýklæddur fer síðan um. Fyrstu dagana eftir opnun var talsverð slysahætta þar sem sturtugólfið var fljúgandi sleipt og þurfti að loka aðstöðunni á meðan gólfið var hraunað. Mörgum finnst gangurinn frá klefunum að sundlaug og heitum pottum ansi langur og hvað þá yfir kaldasta tímann á veturna.

Vonandi hillir undir bjartari tíma fyrir sundgesti Grindvíkinga og verður spennandi að sjá hvort flokkarnir sem eru í framboði muni ekki setja þetta málefni ofarlega á sinn málefnalista en eins og áður kom fram þá ætti að verða hægt að kynna nýtt deiliskipulag íþróttasvæðis á þessu ári.