Sundlaugaverðir á frumlegu námskeiði
Starfsfólk íþróttamiðstöðvanna í Garði og Sandgerði lauk á dögunum þjálfunarverkefninu „Samfó“ sem staðið hefur yfir síðan síðasta haust. Megin markmið verkefnisins var að auka vellíðan og fagmennsku í starfi og byggja upp traust, ábyrgð, samstarf og virkni á vinnustað. Hugmyndin er sú að með aukinni fræðslu og þjálfun sé hægt að draga úr starfsmannaveltu í starfsumhverfi þar sem áhersla er lögð á færni og starfshæfni.
Verkefnið var unnið í samstarfi við starfsþjálfunarfyrirtækið Skref fyrir skref ehf. í Sandgerði undir leiðsögn Hansínu Einarsdóttur. Á námskeiðinu var lögð mikil áhersla á öryggismál, upplýsingamiðlun og þekkingu á nánasta umhverfi sundlauganna enda koma flestir ferðamenn við þar. Þá var einnig unnið með viðmót og nafni á afgreiðslu breytt í gestamóttöku. Nokkuð frumlegri nálgun var beitt við námið, svo sem myndbandagerð og vettvangsferðum í stað hefðbundinna fyrirlestra. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar starfsmönnum Íþróttamiðstöðvarinnar í Sandgerði voru veittar viðurkenningar við lok námskeiðsins. Við athöfnina sagði Jón Hjálmarsson, forstöðumaður, að námskeiðið muni skila betri vinnustað. „Allt öryggi, þjónusta og viðmót á eftir að vera með miklum sóma hér eftir,“ sagði hann.