Sumarlestur í Bókasafni Reykjanesbæjar hefur gengið vonum framar
Sumarlestur í Bókasafni Reykjanesbæjar hófst 1. júní síðast liðinn og er óhætt að segja að hann hafi gengið vonum framar. Um 200 börn skráðu sig til leiks og hafa þau verið iðin við að lesa og skila inn lestrarbingóspjöldum. Lán barnabóka í júnímánuði jukust um 40% frá því í fyrra sumar!
Lestrarbingóspjöldin eru stútfull af hugmyndum um hvar og hvernig er hægt að lesa, t.d. að lesa með vasaljós, að lesa hvíslandi og svo mætti lengi telja. Annan hvern föstudag í sumar var eitt spjald dregið úr bunkanum og eigandi spjaldsins fékk nýja bók að gjöf. Síðasti vinningshafi sumarsins var hin 6 ára gamla Freydís.
Óvissubókapakkar voru einnig í boði í allt sumar en þá gátu börn farið í óvissuferð og fengið alls kyns bækur að láni.
Sumarlesturinn heldur áfram út ágúst en þriðjudaginn 13. september er öllum börnum sem tóku þátt og foreldrum þeirra boðið í uppskeruhátíð.
Heyrst hefur að gesturinn sem komi skrifi mjög skemmtilegar barnabækur....
Fylgist vel með á heimasíðu safnsins, á fésbókarsíðu safnsins, Instagram og á Snapchat.