Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Súlur í Njarðvík og Grindavík með fuglaflensu
Þriðjudagur 26. apríl 2022 kl. 16:40

Súlur í Njarðvík og Grindavík með fuglaflensu

Fuglaflensuveirur af gerðinni H5 greindust í átta sýnum af fimmtán sem tekin voru úr villtum fuglum í vikunni og rannsökuð á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Af þeim átta sýnum sem reyndust jákvæð voru þrjú úr súlum sem fundust í Njarðvík og Grindavík, þrjú úr súlum á Búðum á Snæfellsnesi, eitt úr grágæs á Akureyri og eitt úr svartbak á Húsavík. Þetta kemur fram á heimasíðu Matvælastofnunar.

Fimm sýni voru með óljósa svörun og verða rannsökuð nánar, en í tveimur sýnum greindust ekki fuglaflensuveirur. Sýni sem tekin voru úr alifuglum á tveimur stöðum í vikunni voru öll neikvæð. Matvælastofnun ítrekar mikilvægi þess að fuglaeigendur verndi fugla sína gegn smiti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljóst er að á þessari stundu er fuglaflensa útbreidd í villtum fuglum og smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi manna því mikil. Fuglar sem haldnir eru að hluta til utandyra og í húsum þar sem smitvarnir eru ófullnægjandi, eru í mestri hættu að smitast. Til að koma í veg fyrir sjúkdóm í viðkomandi hópi fugla og um leið tryggja að ekki berist smit úr þeim í villta fugla er nauðsynlegt að viðhafa stöðugar og strangar sóttvarnir þar sem fuglar eru haldnir.

Þeir þættir sem vega þyngst í að vernda alifugla gegn smiti er að hafa þá innandyra eða undir þaki í lokuðu gerði þar sem villtir fuglar komast ekki að og drit frá villtum fuglum getur ekki fallið í gerðið. Við daglega umhirðu fuglanna er best að nota sérstakan skó- og hlífðarfatnað, sem ekki er notaður utan þess húss og gerðis sem fuglarnir eru í. Nánar má lesa um aukið viðbúnaðarstig og smitvarnir í frétt Matvælastofnunar frá 1. apríl 2022.