Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðvesturlínur: Ráðuneytið fellir úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar
Þriðjudagur 29. september 2009 kl. 15:39

Suðvesturlínur: Ráðuneytið fellir úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar


Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum
tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnilegrar meðferðar og úrlausnar.

Í forsendum Skipulagsstofnunar fyrir ákvörðun sinni kemur m.a. fram að þar sem svo óljóst sé hvaða framkvæmdir muni tengjast raforkuöflun og orkuflutningi vegna álvers í
Helguvík og hversu mislangt á veg þær framkvæmdir séu komnar í undirbúningi, myndi það að mati Skipulagsstofnunar stangast á við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að gera Landsneti að bíða eftir því að farið yrði af stað með mat á umhverfisáhrifum nýrra virkjanakosta.

Í úrskurði umhverfiráðherra segir að ýmis atriði í málinu hafi ekki verið nægilega skýr eða upplýst áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun í málinu. Stofnuninni hafi borið að
afla frekari upplýsinga til þess að hún gæti tekið nægjanlega upplýsta afstöðu til þess hvort skilyrðum fyrir sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum væri fullnægt.

Ráðuneytið telur líklegt að vegna álvers í Helguvík, auk annarra orkufrekra verkefna á Suðurnesjum, þurfi að virkja frekar á Reykjanesi og jafnvel víðar. Hins vegar liggi ekki fyrir hversu langt áform um mögulegar virkjanir eru komin, m.a. varðandi suma þá virkjunarkosti sem til athugunar voru vegna álversins þegar mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar fór fram.
„Því er haldið fram af framkvæmdaraðila og fleiri aðilum að af styrkingu flutningslínu þurfi að verða hvort sem þær virkjanir sem enn eru óvissar komi til eða ekki. Engu að síður kemur fram að ekki verði farið í umræddar framkvæmdir nema að því marki sem þörf krefur m.a. vegna virkjanaframkvæmda og iðnaðaruppbyggingar. Að mati umhverfisráðuneytisins liggur því ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti að hvaða marki framkvæmdin Suðvesturlínur er háð því að til frekari virkjunarframkvæmda og iðnaðaruppbyggingar komi,“ segir m.a. í úrskurði ráðuneytisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024