Suðurnesjavaktin lýkur störfum
Starfi Suðurnesjavaktarinnar er lokið eftir þriggja ára samstarf um velferðarmál á Suðurnesjum. Velferðarvaktin, sem sett var á fót af Velferðarráðuneytinu, var bakland Suðurnesjavaktarinnar. Að Suðurnesjavaktinni komu fulltrúar allra helstu velferðarstoða á Suðurnesjum og starfseminni óx fiskur um hrygg á þeim þremur árum sem hún starfaði.
Óhætt er að segja að upprunalega markmiðinu með stofnun Suðurnesjavaktarinnar hafi verið náð því að starf hennar hefur leitt til aukins samstarfs milli hinna fjölmörgu sem vinna að velferðarmálum á Suðurnesjum. Samstarf innan Suðurnesjavaktarinnar hefur einnig leitt til þess að þekkingu á úrræðum í boði á svæðinu hefur verið miðlað með markvissari hætti.
Þrátt fyrir að ákveðnum markmiðum hafi verið náð leiðir þriðja áfangaskýrsla vaktarinnar, sem kynnt var í gær, í ljós að Suðurnesjamenn eiga enn nokkuð í land til þess að allar stoðir samfélagsins á Suðurnesjum nái sínu rétta jafnvægi. Það er von Suðurnesjavaktarinnar að sá grunnur sem lagður hefur verið með starfi hennar styrkist með tímanum, verði undirstaða farsæls samstarfs á sviði velferðarmála og auðveldi gagnasöfnun um mikilvæg velferðarmál, segir í skýrslunni sem kynnt var í gær.
Helstu niðurstöður úr skýrslunnar um stöðuna á Suðurnesjum eru að dregið hefur verulega úr atvinnuleysi á Suðurnesjum. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi á svæðinu 9,4% en var 5,4% í september 2013. Á landinu öllu mældist atvinnuleysi í september 3,8%. 32% einstaklinga á atvinnuleysisskrá eru undir 30 ára aldri.
Hlutfall heimila í vanskilum er hæst á Suðurnesjum en 17% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Næst á eftir Suðurnesjum kemur Suðurland með 10,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,7%.
Eignir Íbúðalánasjóðs eru flestar á Suðurnesjum eða samtals 811. Frá því í apríl 2012 hefur eignum sjóðsins á svæðinu fjölgað um 40%. Nauðungarsölum heimila á Suðurnesjum fer enn fjölgandi og stefnir í metfjölda nauðungarsala árið 2013.
Mikil vinna hefur verið lögð í að skilgreina styrkleika svæðisins og tækifæri til vaxtar. Fjölbreytt og metnaðarfull verkefni hafa verið lögð fram sem ætlað er að mæta þeim erfiðleikum sem steðjað hafa að svæðinu.
Meðaltalsárangur grunnskólanema í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði á samræmdum prófum nú í haust er sá besti frá upphafi mælinga.
Formlegu samstarfi Suðurnesjavaktarinnar með aðkomu velferðarráðuneytisins lýkur um áramótin.
Nánar verður fjallað um skýrslu Suðurnesjavaktarinnar hér á vf.is og í Víkurfréttum næstu daga.