Suðurnesjaskipin gera það gott á loðnuvertíðinni
Grindvíkingur GK lagði af stað frá Siglufirði í hádeginu á loðnumiðin, Grindvíkingur landaði 1077 tonnum af loðnu í Siglufirði og fór það allt í bræðslu. Rúnar Björgvinsson, skipstjóri, segir að Suðurnesjaskipin hafi verið að gera það gott á vertíðinni og sjálfur segist hann eiga eftir að fara þrjár ferðir til að klára kvótann.Aflinn sem hann landaði í Siglufirði veiddist tólf mílur vestur af Garðskaga, en vegna löndunarbiðar í nálægum höfnum varð Grindvíkingur að sigla til Siglufjarðar með aflann. Enn á flotinn eftir að veiða 160 þúsund tonn af loðnukvótanum og er Rúnar ekki bjartsýnn á að það náist og segir hann sérstaklega bagalegt að geta ekki losað skipin fljótt og örugglega þegar komið er að landi. Venjulega líkur loðnuvertíðinni um mánaðarmótin mars-apríl en eftir 20. mars gegnur veiðin frekar treglegar. Grindvíkingur er á leið á miðin undan Snæfellsjökli og vonast Rúnar til að þeir geti næst landað í Helguvík. Hann sagðist hafa frétt af loðnutorfu undan Bolungarvík og ætlaði að athuga hvort eitthvað væri til í þeim féttum í leiðinni vestur eftir landinu frá Siglufirði.