Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjamenn með stórviðburð á Listahátíð
Fimmtudagur 21. maí 2009 kl. 13:46

Suðurnesjamenn með stórviðburð á Listahátíð


Ný íslensk ópera verður frumsýnd á Listahátið í Reykjavík en að verkinu koma fimm Reykjanesbæingar, tónskáldið, einn söngvarinn, leikstjórinn og tveir útsetjarar textans. Verkið verður flutt í  Íslensku óperunni á Listahátíð í Reykjavík 23. og 24. maí kl. 20.

Hel er byggð á samnefndri sögu Sigurðar Nordal. Sagan segir af manni sem heitir Álfur og er frá Vindhæli. Álfur er persónugervingur hinnar mannlegu viðleitni til að finna lífinu tilgang.  Af ótta við að glata sjálfum sér í alls kyns fjötra, hvort sem þeir eru úr járni eða rósum, yfirgefur hann ástkonu sína og heldur í ferðalag að leita gæfunnar.

Það er sviðslistahópurinn Hr. Níels sem setur upp óperuna.  Tónlistin er samin af Sigurði Sævarssyni en hann segist hafa orðið fyrir miklum hughrifum við lestur sögunnar.

„Ég hafði aldrei heyrt um þessa sögu hans Sigurðar Nordal fyrr en félagar mínir sögðu mér af áformum sínum um að gera leikgerð fyrir óperu upp úr henni.  Ég var mjög forvitinn og varð mér úti um eintak af bókinni.  Strax á fyrstu blaðsíðunni birtist mér þessi ljóðræni heimur sem Sigurður hafði skapað fyrir nær hundrað árum.  Ég fann lyktina af skóginum, úðann frá öldum hafsins og hitann af sólinni.  Hver setning dró mig dýpra inn í þennan heim.  Um þetta leiti var ég að ljúka smíði óratóríu við passíusálma Sr. Hallgríms Péturssonar, Hallgrímspassía.  Þó meira en tvær aldir skilji að þessi bókmenntaverk, fann ég strax að þau áttu margt sameiginlegt,“ segir Sigurður um fyrstu kynni sín af sögunni.

Hann segir umfjöllunarefni og frásagnastíl þessara tveggja verka vissulega gjörólík en áhrifin hafi verið hin sömu við lesturinn.
„Allt lifnaði við fyrir augum mér.  Vissan um að ég væri að sjá það sama og sá sem hélt um pennann var algjör. Eins og  við gerð Hallgrímspassíu, þá lét ég textann leiða mig áfram.  Hver einasta nóta fæddist af orðunum.  Það beið engin aría eftir „rétta textanum”, textinn kallaði fram aríurnar.  Tónlistin er einungis sviðsmynd fyrir orðin,“ segir Sigurður.

Leikstjóri verksins er  Ingólfur Níels Árnason.  Söngvarar eru þau Ágúst Ólafsson, Jóhann Smári Sævarsson, Hulda Björk Garðarsdóttir ásamt kór. Hljóðfæraleik annast Caput hópurinn.

Verkið verður flutt í  Íslensku óperunni á Listahátíð í Reykjavík 23. og 24. maí kl. 20.
---

Myndir/Frá æfingum á óperunni Hel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024