Suðurnesjamenn í samfélagsmiðlum
Fjölbreytt verkefni Suðurnesjamanna eru kynnt í miðlinum sudurnesjamenn.is en þar geta allir tekið þátt. Einu skilyrðin eru jákvæð umræða um málefni sem snerta svæðið.Verkefnið er liður í Sóknaráætlun Suðurnesja en markmið þess er að auka jákvæða umræðu um svæðið.
Fyrr á þessu ári var sett á laggirnar vefsíðan sudurnesjamenn.is. Markmið vefsins er að skapa jákvæða umræðu á svæðinu um allt milli himins og jarðar. Suðurnesjamenn í samfélagsmiðlum er liður í átaki Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja til að efla jákvæða ímynd Suðurnesja og hvetur sem flesta Suðurnesjamenn til þátttöku.
sudurnesjamenn.is er vefsvæði þar sem helstu samfélagsmiðlar eru nýttir til þess að miðla umfjöllun og umræðu um samfélagið á Suðurnesjum. Má þar nefna blogg Suðurnesjamanna, greinaskrif, myndbönd á youtube, Tumblr, Flickr, Facebook og Pinterest. Einnig birtir vefurinn RSS straum.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr menningarsjóði Suðurnesja en það er jafnframt liður í sóknaráætlun landshluta. Að sögn Dagnýjar Gísladóttur verkefnastjóra hjá Heklunni er markmiðið að skapa jákvæða umræðu meðal íbúa sem hvattir eru til þátttöku á vefnum sem er gagnvirkur. „Vefurinn sækir reglulega uppfærslur á miðla og hver sem er getur verið með í straumnum með því að senda inn auðkenni síns samfélagsvefs. Einu skilyrðin sem við setjum er að umræðan sé á jákvæðum nótum.“
Áhugasamir eru hvattir til þess að taka þátt, tekið er við ábendingum um áhugavert efni á Suðurnesjum á [email protected]