Suðurnesjamenn fá smjörþefinn af innanlandsfluginu
Á síðasta sólarhring hafa 16 flugvélar frá Flugfélagi Íslands lent á Keflavíkurflugvelli vegna svartaþoku sem legið hefur yfir Reykjavíkurflugvelli. Farþegar Flugfélags Íslands hafa verið ferjaðir með rútum til Keflavíkur og til baka.
Að sögn Helgu Bjarnadóttur vaktstjóra hjá Flugfélagi Íslands hefur áætlun félagsins að mestu haldist þó einhverjar tafir hafi orðið á innanlandsfluginu. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Þó tekur flugafgreiðslan lengri tíma en það hafa allar vélar farið frá okkur í dag. Ég hef aldrei séð eins mikla þoku og er hér yfir Reykjavík í dag,“ sagði Helga í samtali við Víkurfréttir.
Það má því segja að Suðurnesjamenn hafi fengið smjörþefinn af innanlandsfluginu á síðasta sólarhring, en töluvert hefur verið rætt um að innanlandsflugið verði fært til Keflavíkurflugvallar.
Myndin: Þrjár vélar frá Flugfélagi Íslands á Keflavíkurflugvelli í morgun. VF-ljósmynd/Flumálastjórn á Keflavíkurflugvelli.