Suðurnesjamenn fá lægri ríkisframlög því þeir hafa flugstöðina
- bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ mótmæla mismunun ríkisins í framlögum
„Nú bregður hins vegar svo við að fjárframlög ríkisins til Markaðsstofu Reykjaness 2018 hafa verið lækkuð og verða lægri en áður á meðan allar aðrar markaðsstofur landsins fá sama eða hærra framlag frá ríkinu og fyrr. Markaðsstofa Reykjaness er sem sagt sú eina sem fær skert framlög. Skýringarnar ríkisins eru þær að við séum svo nálægt flugvellinum að við þurfum ekki að eyða jafnmiklu púðri í markaðssetningu svæðisins og önnur svæði á landinu,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í færslu á Facebook.
Kjartan, sem áður hefur ítrekað bent á lægri ríkisframlög til Suðurnesja segir einnig: „Þetta smellpassar inn í umræðuna um að Suðurnesin sitji ekki við sama borð og önnur svæði á landinu þegar kemur að fjárveitingum ríkisins. Verkefni og stofnanir ríksins á svæðinu t.d. Heilbrigðisstofnunin, Fjölbrautaskólinn, vegakerfið (Reykjanesbrautin og Grindavíkurvegurinn), lögreglan og svo mætti lengi telja búa öll við lægri fjárframlög pr. íbúa en annars staðar á landinu. Það höfum við sýnt fram á og kynnt fyrir ráðneytum, þingmönnum og öðrum sem það þurfa að vita. SAMT halda menn áfram á þessari braut.“
Sjá pistil Kjartans.
Kolbrún Jóna Pétursdóttir, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar í Reykjanesbæ vekur einnig athygli á á mismunun frá ríkisvaldinu í pistli á Facebook og segir þar m.a.:
„Suðurnesjamönnum er boðið innan við 10 milljóna króna samningur til reksturs Markaðsstofu Reykjaness á meðan önnur landshlutasamtök fá um 20 milljónir. Þetta hefur áhrif á marga aðra þætti en þá að mögulega þurfum við að loka Markaðsstofunni, t.d. það að vottun UNESCO á Reykjanesjarðvangi er í hættu.
Suðurnesin búa við ótrúlega mismunun frá ríkisvaldinu, aðrir landshlutar fá á öllum sviðum miklu hærri fjárveitingar frá ríkinu. Þingmenn og ráðherrar eru vel meðvitaðir hversu svelt við erum að öllu leyti en það er nokkuð ljóst að í okkur er alltaf hent afgöngunum þegar aðrir eru búnir að fá nóg... sem er þó aldrei nóg :/
Viðkvæðið var alltaf hér áður fyrr.... „þið hafið herinn“ og nú er það nálægðin við Flugstöðina sem veldur því að fjárveitingar til okkar eru allar lægri pr. íbúa og yfirhöfuð lægri en annarsstaðar á landinu.“
Pistill Kolbrúnar á Facebook.