Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjamenn eru að eiga við risavaxið vandamál
Mánudagur 4. október 2010 kl. 14:01

Suðurnesjamenn eru að eiga við risavaxið vandamál

- Borgarafundur um atvinnumál á fimmtudaginn

SAR, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi standa fyrir opnum borgarafundi í Stapa fimmtudaginn 7. október næstkomandi kl. 16:30. SAR stendur fyrir fundinum með þátttöku fjölmargra hagsmunaaðila og mun fundarstjórn vera í höndum Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ.

Langtímamarkmið SAR er að uppræta atvinnuleysi á svæðinu með því að berjast fyrir hagstæðum skilyrðum á markaði svo fyrirtæki geti vaxið og dafnað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við núverandi aðstæður þarf að greiða götu þeirra atvinnutækifæra sem blasa við; gagnaver á Ásbrú, álver í Helguvík, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, ECA flugverkefnið, heilsuverkefnið á Ásbrú, virkjanaframkvæmdir og lagning Suðvesturlínu.

Einnig þarf að hlúa sérstaklega að rótgrónum fyrirtækjum og frjóvga jarðveginn þannig að nýir sprotar geti vaxið. Það gerum við með því að koma raunverulegri verðmætasköpun í gang.

Suðurnesin hafa ekki notið sannmælis í fjölmiðlaumræðunni, segir á síðu samtakanna á Facebook. Þar segir: „Suðurnesjamenn eru að eiga við risavaxið vandamál. Atvinnuleysi á Reykjanesi hefur verið það mesta á landinu og hér hafa flest nauðungaruppboð átt sér stað. Því má ekki gleyma að Reyknesingar eru ekki einungis að eiga við hrunið sjálft heldur einnig fortíðarvandann frá 2006 þegar herinn fór og á annað þúsund störf töpuðust.
Það er lágmarkskrafa að þeir milljarðar sem runnu í ríkiskassann annarsvegar frá sölu eigna á varnarliðssvæðinu og hinsvegar frá sölunni á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja skili sér aftur á svæðið.
Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld og hagsmunaaðilar styðji við þá gríðarlegu vinnu sem lögð hefur verið í uppbyggingu atvinnuverkefna á svæðinu. Það verða allir að leggjast á eitt við að koma hjólum atvinnulífsins af stað“.

Samvinna og samstaða

Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi krefjast meiri þátttöku ríkisstjórnar við atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Samtökin munu beita sér fyrir samvinnu yfirvalda, sveitarfélaga og atvinnurekenda á Suðurnesjum um öfluga atvinnuuppbyggingu.

Nauðsynlegt er að greiða leið ákveðinna atvinnusköpunarverkefna í stjórnkerfinu svo Reyknesingar og landsmenn allir fái notið þrotlausrar atvinnuuppbyggingar undanfarinna ára.

„Við hvetjum til samstöðu sem gengur þvert á mörk sveitarfélaga og stjórnmálaflokka – við viljum og þurfum öll vel launuð störf! Velferð er ekki sjálfgefin – hún byggir á grunni heilbrigðs atvinnulífs. Sýnum samstöðu Suðurnesjamenn og fjölmennum á fundinn. Nú er aðgerða þörf,“ segir á síðu Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi.



Mynd: Frá fundi um atvinnumál sem haldinn var í Garði fyrir nokkrum mánuðum. Nú skal aftur blásið til borgarafundar um atvinnumál á Suðurnesjum, enda útlitið svart í atvinnumálum svæðisins. VF-mynd: Hilmar Bragi.