Suðurnesjamagasín í sjónvarp
- margt jákvætt, skemmtilegt og uppbyggilegt í gangi hér suður með sjó, gróska og nýsköpun.
Eftir erfiðan varnarleik að undanförnu hafa Suðurnesjamenn snúið vörn í sókn. Margt jákvætt, skemmtilegt og uppbyggilegt er í gangi hér suður með sjó, gróska á ýmsum sviðum og nýsköpun.
Víkurfréttir ehf., sem nýlega fögnuðu 30 ára afmæli útgáfufyrirtækisins, leggjast nú á árarnar með samfélaginu á Suðurnesjum og ætla að vekja athygli á Suðurnesjum á landsvísu. Víkurfréttir ætla að hefja stórsókn fyrir hönd svæðisins með fjölbreyttri umfjöllun um mannlíf og menningu Suðurnesja, auk þess að taka púlsinn á atvinnulífinu og heyra í skemmtilegu fólki. Afraksturinn af öllu þessu verður svo sýndur í um hálftíma löngum sjónvarpsþáttum á hinni alíslensku sjóvarpsstöð ÍNN, þar sem þriðjungur þjóðarinnar er að fylgjast með dagskránni í hverri viku.
Þættirnir heita Suðurnesja-magasín og verða vikulega á dagskrá á mánudagskvöldum kl. 21:30 og svo endursýndir á tveggja tíma fresti fram til kl. 20:00 á þriðjudagskvöldi. Þættirnir verða einnig sýndir á kapalrás Kapalvæðingar í Reykjanesbæ. Þá verður efni þáttanna einnig aðgengilegt á vef Víkurfrétta. Þar verður hægt að horfa á þáttinn í heild sinni og einnig stök innslög.
Sjónvarpsþátturinn Suðurnesja-magasín verður byggður upp á stuttum innslögum, allt frá einni mínútu og upp í lengri viðtöl. Með þáttunum verður reynt að varpa ljósi á menningu og mannlíf svæðisins, greina frá tíðindum úr atvinnulífinu en umfram allt að segja frá öllu því skemmtilega og uppbyggilega sem er í gangi á Suðurnesjum og sýna þá grósku sem er á svæðinu, m.a. í nýsköpun ýmiskonar.
Það eru fréttamenn Víkurfrétta sem matreiða þáttinn í hverri viku samhliða því að skrifa Víkurfréttir. Nú þegar er langur listi af áhugaverðu efni fyrir þáttinn sem unnið verður úr á næstu vikum. Fréttamenn Víkurfrétta vilja hins vegar vera í góðu sambandi við íbúa svæðisins og fá ábendingar um áhugavert sjónvarpsefni frá Suðurnesjum. Besta leiðin er að senda tölvupóst á póstfangið [email protected] en sá póstur berst til allra fréttamanna VF. Einnig má hringja inn ábendingar í síma 421 0002.
Fyrsti þáttur af Suðurnesja-magasíni fer í loftið mánudagskvöldið 18. febrúar nk. eða eftir rúma viku. Þegar þetta er skrifað er fátt hægt að segja um efni fyrsta þáttarins en áhugasamir geta fylgst með framvindu þáttanna á Fésbókarsíðu Víkurfrétta. Þar munu m.a. birtast glefsur úr því efni sem unnið er að hverju sinni.