Suðurnesjamaður tekur sæti á Alþingi
Birgir Þórarinsson, varaþingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi hefur tekið sæti á Alþingi í fjarveru Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Birgir er fæddur og uppalinn í Keflavík en búsettur á Vatnsleysuströnd. Hann er guðfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í alþjóðasamskiptum frá Washington D.C. í Bandaríkjunum.
Tólf mínútum eftir að Birgir sór drengskapareið í upphafi þingfundar flutti hann jómfrúrræðu sína þegar hann spurði Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, um afgreiðslu á umsókn HS Orku um virkjunarleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Þessi 12 mínútna mörk munu vera met í sölum Alþingis.



 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				