Landsnet sækir um framkvæmdaleyfi fyrir loftlínu vegna Suðurnesjalínu 2
Landsnet hefur ákveðið að sækja um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 og að lögð verði loftlína. Verði hún lögð meðfram Suðurnesjalínu 1 en meðal nýrra forsenda í ákvörðun um loftlínu eru miklar jarðhræringar á Reykjanesi á árinu.
Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti segir að eftir að álit Skipulagsstofnunnar á nýju umhverfismati lá fyrir var farið aftur yfir matið og tekið samtal við sveitarfélögin, Orkustofnun, landeigendur og verkefnaráð línunnar. Auk þess voru gögn um jarðvá sérstaklega yfirfarin af rannsóknaraðilum vegna aukinnar jarðskjálftavirkni á Reykjanesi.
„Eftir ítarlega yfirferð og rýni er niðurstaðan varðandi aðalvalkost óbreytt, þ.e. loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1. Ákvörðunin er að á grundvelli ákvæða raforkulaga sem kveða á um skyldur Landsnets um að byggja upp öruggt og hagkvæmt flutningskerfi raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins. Að auki byggir ákvörðunin á ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum um að leyfisveitingin byggi á upplýstri ákvarðanatöku hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið, þar sem bornir hafa verið saman valkostir, umhverfismatið kynnt opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefið tækifæri til að koma á framfæri ábendingum.
Í áliti Skipulagsstofnunar var farið fram á að sveitarfélögin tækju sameiginlega afstöðu og í ljósi þess að nú eru liðnir um sex mánuðir og að ekkert lát virðist á jarðhræringum á Reykjanesi, sem enn frekar ýtir undir mikilvægi þess að koma á annarri tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið, hefur Landsnet nú ákveðið að sækja um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 og var beiðni þessi efnis send á viðkomandi sveitarfélög föstudaginn 11. desember.
Undirbúningur fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 hefur staðið yfir lengi og við hjá Landsneti höfum í mörg ár talað fyrir mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja,“ sagði Steinunn.