Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Suðurnesjahringurinn“ fær mikil og jákvæð viðbrögð
Laugardagur 10. júlí 2010 kl. 14:00

„Suðurnesjahringurinn“ fær mikil og jákvæð viðbrögð

Hugmynd Gylfa Jóns Gylfasonar sálfræðings um göngustíg sem myndar hringleið um Reykjanesbæ, Garð og Sandgerði um Ósabotna og yfir til Fitja fellur í góðan jarðveg hjá bæjarstjórunum í Reykjanesbæ og Garði. Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis er á sama máli „Við tókum jákvætt í erindi Gylfa Jóns á bæjarráðsfundi í síðustu viku og næsta skref er að fulltrúar sveitarfélaganna hittast til að fara nánar yfir málið,“ sagði Ólafur Þór í samtali við Víkurfréttir.

Þá hefur mátt sjá viðbrögð við hugmyndinni á Facebook-síðum og eru þau öll á þann veg að fólk vilji sjá stíginn verða að veruleika.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Okkur líst vel á þessa hugmynd,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ. „Nú höfum við lokið gerð 10 km göngu- og hjólreiðastígs meðfram ströndum Keflavíkur og Njarðvíkur, og í samstarfi við HS og Grindavík lagt stíga umhverfis Gunnuhver á Reykjanesi. Við höfðum fengið jákvæð viðbrögð Norðuráls um að leggja stíg frá Vesturbraut í Keflavík út í álverslóð og þaðan út í Garð, þannig að margt er að safnast í  þessa ágætu hugmynd,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.

„Göngustígshugmynd Gylfa fellur mjög að hugmyndum okkar í Garði um uppbyggingu göngustíga á svæðinu og hefur þegar verið samþykkt í bæjarráði að skoða þessa hugmynd,“ sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði við Víkurfréttir. „Við höfum einnig verið að skoða fleiri hugmyndir í samstarfi við Norðurál“. Bæjarráð Garðs fagnar erindi Gylfa Jóns. Í fundargerð ráðsins segir: „Hugmyndin fellur vel að framtíðaráætlunum Garðs um uppbyggingu göngu- og heilsustíga í sveitarfélaginu og tenginu þeirra við göngustíga nágrannasveitarfélaganna. Hugmyndin um að „Suðurnesjahringurinn“ falli vel í landslagið utan þéttbýlis er í takt við framtíðaráætlanir Garðs um göngu- og heilsustíga. Bæjarráð samþykkir að haft verði samband við Reykjanesbæ og Sandgerði um sameiginlega áætlun um framkvæmd „Suðurnesjahringsins“ á næstu árum. Samþykkt samhljóða“.