Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesjabær fagnaði þriggja ára afmæli
Suðurnesjabær fagnaði þriggja ára afmæli sínu síðastliðinn fimmtudag, þann 10. júní. Þá voru fjórtán fyrrum starfsmönnum Suðurnesjabæjar færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins. Bæjarstjórnin bauð til kaffisamsætis í Vörðunni, Ráðhúsi Suðurnesjabæjar í Sandgerði, af þessu tilefni.
Fimmtudagur 17. júní 2021 kl. 06:55

Suðurnesjabær fagnaði þriggja ára afmæli

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, flutti ávarp og afhenti starfsmönnum sem unnið hafa hjá sveitarfélaginu í tíu ár eða lengur, og eru að ljúka störfum vegna aldurs, gjafabréf og afsteypur af verkum Ásmundar Sveinssonar. Þá lék Halldór Lárusson, tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis, á HandPan.

„Afmælisdagur Suðurnesjabæjar er 10. júní en þann 10. júní 2018 tók sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs formlega til starfa. Það er vel við hæfi að halda þessum degi vel á lofti og gera eitthvað ánægjulegt með hann. Að þessu sinni var ákveðið að þakka starfsmönnum sem hafa undanfarin þrjú ár látið af störfum hjá sveitarfélaginu vegna aldurs. Við höfum frestað þeim atburði ítrekað vegna Covid-heimsfaraldurs en nú var þetta ánægjulega tækifæri notað til þess,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við þetta sama tilefni var ljósmyndavefur Suðurnesjabæjar formlega opnaður. Vefurinn er gjöf Jóhanns Ísbergs til sveitarfélagsins og hefur að geyma safn mynda frá Suðurnesjabæ og gömlu sveitarfélögunum, Garði og Sandgerði. Vefurinn, sem nú ber heitið Suðurnesjamyndir, bíður nú þess stóra verkefnis að verða mikilvægt gagnasafn heimilda sem með tímanum mun stækka jafnt og þétt.

„Jóhann Ísberg gaf Sveitarfélaginu Garði ljósmyndavefinn á sínum tíma og eru honum færðar þakkir fyrir þá gjöf. Það var tilvalið að nota afmælisdaginn til að opna vefinn og vonandi tekst vel til með að safna myndefni inn á vefinn og að góð þátttaka verði við að koma þar á framfæri upplýsingum um fólk og atburði sem myndirnar sýna,“ segir Magnús.

Dagurinn hófst með þeim hætti að börn af leikskólanum Gefnarborg heimsóttu bæjarstjóra, afhentu honum ljóðabók og buðu á ljósmyndasýningu Gefnarborgar. Tilefnið er 50 ára afmæli Gefnarborgar sem á sama afmælisdag og Suðurnesjabær.