Suðurnesin styrkja menntastöðu sína
Hlutfall kvenna á Suðurnesjum sem eru með stúdentspróf sem hæstu námsgráðu er vel yfir landsmeðaltali og það hæsta sem greint er eftir 8 landshlutum. Þá er iðnmenntun karla á Suðurnesjum vel yfir landsmeðaltali.
Þetta kemur m.a. í nýlegri könnun sem Byggðastofnun fékk Capacent til að taka saman um menntunarstig landsmanna árið 2011-2012.
Í könnuninni kemur þó fram að heildarhlutfall karla og kvenna sem hafa súdentspróf er undir landsmeðaltali þar sem karlar eru greinilegir eftirbátar kvenna í stúdentsprófinu.
Þeir bæta það upp með því að iðnmenntun karla á Suðurnesjum er vel yfir landsmeðaltali og þriðja hæsta af 8 landshlutum.
Enn er hátt hlutfall íbúa sem hafa einvörðungu lokið grunnskólaprófi.
„Heildar niðurstöður sýna að menntunarstig á Suðurnesjum er í heildina ekki lengur hið lægsta á landinu eins og fyrri vísbendingar hafa gefið til kynna. Breytt viðhorf íbúa til gildis menntunar og öflugir skólar eins og Fjölbrautaskóli Suðurnesja og hinn ungi skóli Keilir, eiga án efa stærstan þátt í að hafa breytt þessari stöðu. Og við erum hvergi hætt námi,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri.