Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnesin munu rísa á ný - Skúli Mogensen selur ódýrar íbúðir á Ásbrú
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 21. október 2020 kl. 11:06

Suðurnesin munu rísa á ný - Skúli Mogensen selur ódýrar íbúðir á Ásbrú

Hótelherbergjum Base hótel á Ásbrú breytt í litlar íbúðir sem nú eru komnar í sölu. „Suðurnesin munu rísa á ný,“ segir Skúli Mogensen.

Tveggja herbergja íbúðir í tveimur byggingum sem áður hýstu Base hótel á Ásbrú hafa verið settar á sölu og kosta frá 14,9 milljónum króna. Fasteignasalan M2 í Reykjanesbæ og Stakfell í Reykjavík eru með íbúðirnar í sölu. Sigurður Sigurbjörnsson, fasteignasali hjá M2, segir að hér sé gott tækfæri fyrir þá sem hafa áhuga á að kaupa sína fyrstu eign að fjárfesta í ódýrri fasteign.

Samtals verða þetta 80 íbúðir í báðum blokkunum sem áður hýstu hótelið. Þar af eru 72 tveggja herbergja íbúðir sem eru um 40 fermetrar auk þriggja fermetra geymslu í sameign og er verðið frá aðeins 14,9 milljónum króna. Íbúðirnar skiptast í rúmgott og opið alrými með stofu og eldhúsi. Þá er svefnherbergi og baðherbergi með baðkari og þvottaaðstaða er staðsett inni í íbúðinni.    

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gangi allt að samkvæmt áætlun verða fyrstu íbúðirnar afhentar í byrjun næsta árs. Þrjár mismunandi standsettar íbúðir eru til sýnis að sögn Sigurðar. Íbúðirnar voru sýndar í fyrsta sinn um síðustu helgi og voru viðbrögðin vonum framar að hans sögn og nú þegar eru ellefu íbúðir af fjörutíu seldar.

Skúli Mogensen, eigandi fasteignanna, segir að í ljósi aðstæðna lá fyrir að þessar byggingar myndu ekki nýtast undir hótelrekstur á næstunni. „Því lá beinast við að skoða aðra möguleika og sem betur fer hentar þetta húsnæði mjög vel undir litlar íbúðir. Við höfum við getað unnið þetta hratt og vel með öllum hagsmunaaðilum og skipulagi sem gerir það að verkum að við getum núna boðið góðar íbúðir á svona hagstæðu verði,“ segir Skúli, fyrrverandi eigandi WOW flugfélagsins.

Skúli sagði í upphafi ferðamannabylgjunnar fyrir fimm árum að möguleikarnir væru mestir á Suðurnesjum í ferðaþjónustunni. Suðurnesin væru „sætasta stelpan á ballinu“ var fræg setning sem hann sagði í viðtali við Víkurfréttir árið 2015.

„Ég hef ennþá fulla trú á svæðinu og Suðurnesjum í heild sem munu án efa rísa á ný þegar landið opnast á ný,“ segir Skúli Mogensen.

Séð inn í íbúðirnar í Base byggingunni á Ásbrú.