Suðurnesin hafa alla burði til að verða eins og Kísildalurinn
„Ég er sannfærð um að Suðurnesin hafa alla burði til að geta orðið vagga nýsköpunar og tækni hér á landi, rétt eins og Kísildalur í Bandaríkjunum,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra þegar hún ávarpaði aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesja í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í morgun.
Ráðherra sem jafnframt er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis sagði að með sama hætti og Kísildalurinn varð til vegna byggðalegrar framsýni og einstaklingsframtaks, gæti Ásbrú og Suðurnesin eflst og orðið hreiður hátækni, miðstöð sérhæfingar í hugbúnaði, gervigreindar, gagnavinnslu, tölvuleikjagerðar, matvælaframleiðslu, orkuframleiðslu og hvers sem okkur dettur í hug.
„Það er ótúlegt en satt en tölvuleikir eru orðnir stærri en kvikmynda-, íþrótta og tónlistargeirarnir til samans. Bara hér á landi starfa á fjórða hundrað manns nú þegar við tölvuleikjagerð. Eins og ein stóriðja! Og hér á Suðurnesjum er eina sérhæfða námsbrautin í tölvuleikjagerð.
Á undanförnum árum hafa stórkostlegir hlutir gerst sem renna stoðum undir það að þessi framtíðarsýn er að verða að veruleika. Grænir iðngarðar eru að rísa þar sem áður stóð til að bræða málm! Í nýliðinni kjördæmaviku fórum við þingmenn kjördæmisins hér um og kynntum okkur framtíðaráætlanir grænna iðngarða í Helguvík. Það var stórkostlegt að upplifa þann kraft sem þar er að finna og heyra að nú þegar er búið að skrifa undir leigusamning við fyrsta fyrirtækið. Tækifæri okkar til vaxtar í þessum geira eru gríðarleg. Við þurfum hér eftir sem hingað til að sýna frumkvæði, djörfung og pólitískan vilja,“ sagði Guðrún.
Ráðherra sagði einnig að að eitt af helstu áherslumálum þingmanna kjördæmisins væri að tryggja og bæta heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Því væri það gleðiefni að gerðar hafi verið mikilvægar umbætur með opnun einkarekinnar heilsugæslu sem opnaði í september. „Þá er búið að ráðast í miklar endurbætur á Sjúkradeild HSS og ný bráðamóttaka tekin í notkun með fullkomnustu tækjum sem völ er á. Er nú hægt að fullyrða að glæsilegasta bráðamóttaka landsins er nú í Reykjanesbæ,“ sagði ráðherra.