Suðurnes: Svipað atvinnuástand milli mánaða
Alls voru 317 skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum í janúarmánuði, 112 karlar og 205 konur. Það eru 75 fleiri einstaklingar en voru atvinnulausir í sama mánuði árið áður.
Nú í byrjun mars eru 318 manns skráðir atvinnulausir á svæðinu, 116 karlar og 202 konur þannig að ástandið er nokkuð stöðugt.
Að sögn Ketils Jósefssonar, hjá Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja, er ástandið nokkuð í takt við það sem þekkist á þessum árstíma. „Þetta er aðeins meira en í venjulegu árferði en samt engin sveifla. Miðað við hvað er mikið um að vera á svæðinu er ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur sem slíkar. Einnig vitum við að ástandið skánar alltaf með hækkandi sól.,“ sagði Ketill samtali við VF.
Að stórum hluta er það ófaglært starfsfólk sem er atvinnulaust. Einnig er nokkuð um vinnufært fólk með skerta starfsorku sem gengur erfiðlega að fá vinnu við sitt hæfi. Í þriðja lagi er um að ræða hóp fólks sem komið er af léttasta skeiði en er enn í fullu fjöri. Sá hópur á ekki alltaf auðvelt með að fá vinnu og hefur farið stækkandi, að sögn Ketils.
Ketill segir að nú standi fyrir dyrum átak í samstarfi við Reykjanesbæ þar sem farið verður í viðræður við fyrirtæki og stofnanir um atvinnumöguleika þessa fólks.