Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnes eini landshlutinn með aukið aflaverðmæti
Mánudagur 30. ágúst 2004 kl. 16:50

Suðurnes eini landshlutinn með aukið aflaverðmæti

Suðurnesin eru eini landshlutinn sem skilar auknu aflaverðmæti frá janúar til maí á þessu ári. Í öllum öðrum landshlutum var samdráttur í samanburði við sömu mánuði síðasta árs samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Veruleg aukning var hins vegar á þessu tímabili í verðmæti afla sem fluttur er í gámum til vinnslu erlendis.
Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var á tímabilinu 15 milljarðar króna samanborið við 15,7 milljarða á árinu 2003 og er það samdráttur um 4,7%. Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2004 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 30 milljarðar króna samanborið við nærri 31,4 milljarða á sama tímabili 2003. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um 4,2% á milli ára eða um 1,3 milljarða króna, á verðlagi hvors árs fyrir sig. Hins vegar er 4,9% aukning á verðmæti útfluttra sjávarafurða ef horft er til 7 mánaða, eða tímabilið frá janúar til júlí, en frá þessu segir á fréttavefnum skip.is.

Hlutfallslega var mestur samdráttur á Vestfjörðum eða -12,1% fyrstu fimm mánuði þessa árs. Næst kom Norðurland vestra með –11,2%, þá Vesturland með –10,7%, síðan Austurland með –10,3% og höfuðborgarsvæðið með –10,0%. Suðurland er með heldur minni samdrátt í verðmæti unnins afla, eða –9,5% og Norðurland eystra var með –8,1%. Best var staðan sem fyrr segir á Suðurnesjum sem voru með 4,3% í aukningu verðmæta unnins sjávarafla.

Ef litið er sérstaklega á Vestfirði, þá var landað þar 18.344 tonnum af sjávarfangi fyrstu fimm mánuðina 2004 að verðmæti rúmar 1.832 milljónir króna. Á sama tíma í fyrra var landað 20.694 tonnum að verðmæti rúmar 2.086 milljónir króna. Samdráttur í tonnum talið er því um 11,3% og í verðmætum eins og fyrr segir um 12,1%.

Það vekur nokkra athygli að verðmæti afla sem flutt er til vinnslu erlendis hefur aukist verulega frá fyrra ári, eða um 40,9%. Þar af jókst verðmæti afla sem sent var í gámum beint til útflutnings um 53,6%. Einnig jókst verulega verðmæti þess afla sem landað var á markað í gáma til útflutnings eða um 50,7%. Þá var 11,7 verðmætaaukning í löndun á bræðslufiski erlendis.

Athyglisvert er einnig að verðmæti á sjófrystum afla hefur fallið frá fyrstu fimm mánuðum fyrra árs um –13,1%. Verðmæti á sjófrystum afla til endurvinnslu innanlands dróst líka verulega saman, eða um –64,1%. Þá er einnig mikill samdráttur hvað varðar aflaverðmæti úr fiskeldinu, eða um –44%.

Fleiri fréttir á skip.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024