Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Suðurnes ehf. - Ein stór fjölskylda
Mánudagur 8. ágúst 2005 kl. 19:19

Suðurnes ehf. - Ein stór fjölskylda

Þrátt fyrir að Suðurnes ehf. hafi hætt starfsemi er ljós í myrkrinu að sögn Stefaníu Valgeirsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Ég vil koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem veittu okkur stuðning. Sér í lagi vil ég þakka Árna Sigfússyni, bæjarstjóra fyrir veittan stuðning og hluttekningu vegna lokunar Suðurnes ehf,“ sagði Stefanía og bætti við að um leið og ákveðið var að loka fyrirtækinu hefði bæjarstjórinn haft samband við sig og boðið fram aðstoð sína.

„Í kjölfar lokunar fyrirtækisins misstu allir starfsmenn þess vinnu sína, sem er ávalt áfall fyrir hvern þann sem í því lendir.  Ljósið í myrkrinu er að stór hluti starfsfólks er í þann mund að komast í örugga höfn. Fjölmörg fyrirtæki hafa haft samband við okkur og falast eftir starfsfólki,“ sagði Stefanía og þakkaði bæjarstjóranum og atvinnurekendum fyrir vasklega framkomu.

„Síðast en ekki síst vil ég koma á framfæri þakklæti til alls starfsfólks Suðurnes ehf. sem hefur í einu og öllu staðið saman sem ein stór fjölskylda fram til þessa og sýnt mér og hvert öðru ómetanlegan stuðning og samstöðu á erfiðum tímum.“ sagði Stefanía að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024