Sú rússneska komin á brautarenda - myndir
Viðgerð á rússnesku Sukhoi Superjet 100 þotunni sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli í sumar er lokið. Vélin var tekin úr flugskýli nú áðan og hefur verið á brautarenda á Keflavíkurflugvelli síðasta hálftímann eða svo. Þar hafa mótorar vélarinnar verið prófaðir. Víkurfréttir hafa ekki upplýsingar um það hvort vélin fari af landi brott í kvöld.
Unnið hefur verið að viðgerðinni á vélinni í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli. Þar var byggð yfir vélina trégrind og hún klædd byggingaplasti til að kynda upp vinnuaðstöðu flugvirkja sem vinna að viðgerðinni. Þeir hafa nú lokið viðgerð á vélinni en hún átti að fara frá Keflavíkurflugvelli fyrir árslok.