Sú rússneska hefst á loft á ný
Flutningaraðgerðir standa nú yfir á Keflavíkurflugvelli
Um þessar mundir er verið að færa rússnesku flugvélina við brautarenda flugbrautar 29 sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli sl. sunnudagsmorgun. Rússnesk flugyfirvöld og tryggingaraðilar komu til landsins í gær og ákveðið var að fjarlægja flugvélina af flugbrautinni í dag.
Notaður er búnaður sem Isavia fjárfesti í fyrir um ári síðan og kemur hann því að góðum notum. Settir hafa verið uppblásnir púðar undir vængi vélarinnar og á næsta klukkutímanum á að reyna að koma hjólunum niður og færa flugvélina burt með þeim hætti.
Rannsóknarnefnd Samgöngumála og Lögreglan á Suðurnesjum vinnur nú að rannsókn brotlendingarinnar en á þessari stundu er ekki vitað með vissu hvað olli slysinu. Eins og áður hefur komið fram slasaðist einn af fimm farþegum en sá ökklabrotnaði. Umrædd flugvél hefur verið sl. mánuð við tilrauna- og æfingaflug á Keflavíkurflugvelli á vegum framleiðanda vélarinnar.
Hægt verður að sjá myndband og fleiri myndir af flutningi vélarinnar síðar hér á vf.is
Hér er hægt að sjá búnaðinn sem notaður er við flutninginn.