Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 16. apríl 2002 kl. 15:15

Styttist í samræmd próf í 10. bekk grunnskóla

Dagana 23. til 30. apríl n.k. eru 10. bekkingar grunnskóla, um land allt, að þreyta samræmd lokapróf í íslensku, ensku, náttúrufræði, stærðfræði og dönsku. Alls er um fimm samræmd lokapróf að ræða og gefur augaleið að töluvert álag hvílir á börnunum ykkar og nemendum okkar. Má ætla að flest allir nemendur í 10. bekk takist á við öll prófin fimm, þó einhverjar undantekningar séu, því með breyttu formi skólaárið 2001-2002 skráir hver nemandi sig í þau próf sem hann vill þreyta.
Vert er að vekja athygli á því að öll prófin standa yfir í þrjár klukkustundir. ,,Það þarf sterk bein til að þola góða daga,” segir málshátturinn. Góð gagnkvæm tengsl geta haft jákvæð áhrif og eru líklegri til að virka þannig að barnið standi sig vel. Aftur á móti getur mikill þrýstingur á; ,,að leggja harðar að sér’’ til að bæta námsárangur virkað öfugt.
Við hvetjum því foreldra til að fylgjast sérstaklega vel með barninu sínu, veita því aukna athygli og umhyggju, fyrir og meðan á próftímabilinu stendur, nú sem endranær. „Með viljann að vopni,“ ættu foreldrar að taka höndum saman og stuðla að því:
Að ræða við barnið sitt að loknu hverju prófi, hrósa og beina sjónum þess að því sem vel gekk.
Að hvetja barnið til dáða við skipulagningu að næsta prófi og aðstoða það eftir þörfum. Hrósa því fyrir mikla og góða vinnu.
Að barnið hafi næði við undirbúning fyrir næsta próf. Það má ekki gleymast að hvíld er hluti af góðum námsvenjum.
Að sjá til þess að barnið fari snemma að sofa en vakni fyrr.
Að sjá til þess, með barninu, að öll gögn fyrir næsta próf séu ljós að kvöldi svo næsti morgunn hyljist ekki myrkri.
Að sjá til þess að barnið borði næringaríkan mat, hollan morgunverð og hafi hollt nesti með sér í prófin.
Að sjá til þess að barnið mæti um 20-30 mín. fyrir próftímann í skólann.
Að hvetja barnið til að sækja þá stoðtíma sem því stedur til boða.
Að barnið finni öryggi, festu og jákvæðan aga.
Að gera allt sem styrkir og hvetur barnið til góðs undirbúnings.

Niðurstöður úr samræmdum prófum einar og sér skipta máli fyrir framhaldsnám barnanna. Þau þurfa að standast ákveðnar lágmarkskröfur til að fá inngöngu á allar brautir framhaldsskóla, nema almennu brautina. Sjá nánar á vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja; fss.is
Þá viljum við einnig benda á grein eftir Auði R. Gunnarsdóttur um prófkvíða á vefnum; http://[email protected], undir liðnum: Kvíði og fælni, sem við teljum auðlesna og upplýsandi fyrir foreldra, nemendur og kennara.
Að lokum viljum við hvetja ykkur til að geyma greinina!

Steinunn Njálsdóttir, íslenskukennari í Heiðarskóla og foreldri barns í 10. bekk.

Björn Víkingur Skúlason, aðstoðarskólastjóri og stærðfræðikennari í 10. bekk Heiðarskóla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024