Styrkur til HSS fyrir þróun þverfaglegs samstarfs
Verkefni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hlaut í síðustu viku styrk frá velferðarráðuneytinu að upphæð 500.000 krónur. Frá þessu er greint á vef Heilbrigðisstofnunarinnar. Verkefnið, sem ber yfirskriftina „Þróun þverfaglegs samstarfs á heilsugæslu“, er eitt af tólf verkefnum sem hlutu styrki að þessu sinni, en þeir voru annars vegar veittir til verkefna sem miða að nýbreytni í verklagi innan heilsugæslunnar og hins vegar verkefna sem ætlað er að efla þverfaglegt samstarf.
Í rökstuðningi HSS fyrir verkefninu segir:
„Í langan tíma hefur verið skortur á læknum á HSS, bæði sérfræðingum í heimilislækningum og unglæknum. Því hefur verið erfitt að halda utan um skjólstæðinga heilsugæslunnar, fylgja þeim eftir og sjá til þess að þeir fái örugglega þá þjónustu sem þurfa.
Skjólstæðingar eiga einnig erfitt með að fá eftirfylgni hjá sama lækni vegna þessa skipulags. Þróa á teymisvinnu hjúkrunarfræðings og lækna á heilsugæslu HSS í þverfaglegu samstarfi við faghópa innan HSS og utan til þess að halda utan um þjónustu skjólstæðinga heilsugæslu HSS. Haft er að leiðarljósi að þverfaglega samstarfið verði til þess að eftirfylgni með þjónustu skjólstæðinga heilsugæslu HSS sem leita læknisaðstoðar verði markviss og árangursrík.“
Á myndinni eru fulltrúar stofnanna sem fengu styrki að þessu sinni, en Kristján Már Júlíusson heilbrigðisráðherra afhenti styrkina. Mynd/Velferðarráðuneytið