Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Styrkjum úthlutað til 85 verkefna
Sunnudagur 22. nóvember 2009 kl. 15:30

Styrkjum úthlutað til 85 verkefna

- Samkvæmt samningi sveitarfélaga á Suðurnesjum við menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti.

Menningarráð Suðurnesja úthlutaði nýverið styrkjum til 85 menningarverkefna á Suðurnesjum, samtals að upphæð 23 milljónir króna. Hæstu almennu styrkirnir nema 700 þúsund krónum, auk eins öndvegisstyrks að upphæð 800 þúsund krónur. Lægstu styrkirnir hljóða upp á 50 þúsund krónur.

Alls bárust menningarráðinu 105 styrkumsóknir í þetta skipti og er það 54% fjölgun umsókna frá því að síðast var úthlutað. Heildarumfang þeirra verkefna sem sóttu um styrki er áætlað rúmlega 320 milljónir króna og var sótt um styrki samtals að fjárhæð tæpar 100 milljónir kr.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum undirrituðu 3. maí 2007 samning við menntamálaráðherra og samgönguráðherra um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurnesjum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta er þriðja og síðasta úthlutun Menningarráðs Suðurnesja, samkvæmt þessum samningi, en Menningarráðið er skipað fulltrúum allra sveitarfélaganna fimm. Óskað hefur verið eftir framlengingu samningsins.

Af umsóknum og úthlutunum má ráða að menningarstarf á Suðurnesjum er blómlegt og víða að finna kraftmikla nýsköpun, hvort heldur er á sviði lista eða menningartengdrar ferðaþjónustu. Sérstaka athygli vekja að þessu sinni mörg og metnaðarfull samstarfsverkefni sem ná til allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Úthlutunin fór fram við hátíðlega athöfn í Saltfisksetrinu í Grindavík að viðstöddum styrkþegum og fjölda annarra gesta. Garðar K. Vilhjálmsson formaður Menningarráðs Suðurnesja afhenti styrkina og flutti ávarp.