Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Styrkja Fjölsmiðjuna um tvær milljónir
Frá undirritun styrktarsamningsins.
Þriðjudagur 15. desember 2015 kl. 12:36

Styrkja Fjölsmiðjuna um tvær milljónir

– Rauði krossinn á Suðurnesjum styður Fjölsmiðjuna

Rauði krossinn á Suðurnesjum hefur undirritað styrktarsamning við Fjölsmiðjuna á Suðurnesjum. Undirritunin fór fram í Kompunni nytjamarkaði, sem er afar táknrænt, því Rauði krossinn á Suðurnesjum færði Fjölsmiðjunni rekstur Kompunnar þegar Fjölsmiðjan var stofnuð. Það voru þeir Hannes Friðriksson formaður Rauða krossins á Suðurnesjum og Þorvarður Guðmundsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum sem undirrituðu samkomulagið.

Allt frá upphafi hefur Kompan verið lífæðin í rekstri Fjölsmiðjunnar og nýtur hún góðs af velvilja fjölda fólks sem gefur vörur þangað í stað þess að henda þeim. Þannig öðlast gamlir munir nýtt líf í annarra höndum. Rauði krossinn er meðal stofnaðila að Fjölsmiðjunni og ávallt hefur verið gott samstarf á milli þessara aðila.

Styrktarsamningurinn hljóðar upp á tveggja milljóna rekstrarstyrk sem greiddur verður á þremur árum. Að sögn Þorvarðar Guðmundssonar forstöðumanns Fjölsmiðjunnar er þessi samningur afar mikilvægur og gleðilegur fyrir rekstur Fjölsmiðjunnar sem oft hefur verið í járnum.

Að jafnaði starfa um 25 ungmenni í Fjölsmiðjunni og alls hafa um 90 nemar starfað þar frá upphafi. Dvöl nemanna í Fjölsmiðjunni snýst um að komast í virkni og læra í gegnum vinnu. Langflestir þeirra sem hafa verið í Fjölsmiðjunni útskrifast til vinnu á almennum vinnumarkaði eða til náms. Fjölsmiðjan er í góðum tengslum við nærsamfélagið og hefur unnið gott verk frá stofnun hennar.

Meðal verkefna sem nemarnir vinna við eru afgreiðslustörf í Kompunni, sendlastörf á sendibíl Fjölsmiðjunnar og nýjasta verkefnið er brettasmíði þar sem smíðuð eru ný bretti til fiskútflutnings úr gömlu efni. Þeir sem versla við Fjölsmiðjuna eru í raun að láta gott af sér leiða því allur ágóði, ef einhver er, af rekstrinum fer í að byggja betri stoðir fyrir þau ungmenni sem þar starfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024