Styrkja, efla og bæta þjónustu við íbúa Suðurnesja
Lokadrög að nýsköpunaráætlun um þróun velferðarþjónustu á Suðurnesjum 2022 voru lögð fyrir fund velferðarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku. Hilma H. Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála, og Eydís Rós Ármannsdóttir, verkefnastjóri Velferðarnets – sterkrar framlínu, mættu á fundinn og kynntu áætlunina.
Starfshópur Suðurnesja um Velferðarnet – sterka framlínu hefur sent áætlunina til umsagnar hjá sveitarstjórnum á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Vinnumálastofnun og Sýslumanninum á Suðurnesjum.
Velferðarnet – sterk framlína byggir á aðgerðum tvö og þrjú í aðgerðaáætlun ríkisins um eflingu þjónustu á Suðurnesjum sem kom út í maí 2020. Aðgerð tvö nefnist Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans og aðgerð þrjú Þverfaglegt landshlutateymi (Velferðarstofa).
Aðgerðirnar snúa báðar að því að styrkja, efla og bæta þjónustu við íbúa Suðurnesja með aukinni upplýsingagjöf, fræðslu og þjálfun. Jafnframt snúa þær að því að efla framlínuþjónustu með það að markmiði að styðja íbúa til sjálfbærni í upplýsingaöflun og þjónustu og samþætta þjónustuþætti með megináherslu á aukin lífsgæði og velferð íbúa út frá félagslegri virkni og vellíðan. Leiðarljós aðgerðanna beggja er nýsköpun í þjónustu og er unnið út frá því að sú samvinna sem þegar hefur orðið við gerð áætlunarinnar og áframhaldandi þverfagleg og þverstofnanaleg samvinna muni leiða til skapandi og nærandi jarðvegs þar sem nýsköpun blómstrar, frumkvæði vex og hugmyndaauðgi þrífst.