Styrkir til ólympíufara af Suðurnesjum
Í dag afhentu Reykjanesbær og nokkur fyrirtæki í bæjarfélaginu peningaupphæðir í styrktarsjóð vegna vegna Ólympíuleikana í Aþenu seinna í sumar. Sjóðurinn er sameiginlegt frumkvæði MÍT og sunddeildanna og er ætlað að hjálpa þeim íþróttamönnum sem fara á Ólympíuleikana í Aþenu. Sparisjóðurinn í Keflavík, Íslenskir Aðalverktakar, Hitaveita Suðurnesja og Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru þau fyrirtæki sem hafa gefið í sjóðinn ásamt MÍT. Nú þegar hafa þrír íþróttaiðkendur úr Reykjanesbæ náð lágmörkum fyrir Ólympíuleikana en það eru, Örn Arnarsson og Íris Edda Heimisdóttir úr sundliði ÍRB og Jóhann R. Kristjánsson úr Íþróttafélaginu Nesi, félag fatlaðra, en hann keppir í borðtennis. Um þessar mundir eru tveir sundmenn til viðbótar að reyna að ná lágmarkinu en frestur til að ná því rennur út 20. júlí.
Myndin: Styrktarsamningar undirritaðir. VF-ljósmynd/Atli Már.