Styrkir frá skötumessu afhentir á Bessastöðum
Skötumessan sem haldin er í Garðinum í júlí ár hvert er að festa sig í sessi sem stór og mikil fjáröflunarhátíð þar sem góð og þörf málefni fá veglegan stuðning. Í ár söfnuðust 850.000 krónur. Styrkina fá þeir sem með einum eða öðrum hætti sinna störfum fyrir sjúka og fatlaða eða eru fatlaðir á einhvern hátt. Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn á Bessastöðum sl. þriðjudag og kom það í hlut Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að afhenda styrkina.
Þeir sem fengu styrk að þessu sinni voru m.a. Íþróttafélagið NES, Á allra vörum, Jón Margeir Sverrisson sundmaður í Kópavogi, Hallfríður Reynisdóttir og sjálfboðaliðar á Garðvangi.
Öllum þeim er tóku þátt í Skötumessunni í Garði og borðuðu til góðs er þakkað fyrir stuðninginn, hvort heldur var í framlögðu hráefni, framlagi í skemmtidagskrá og ekki síður vinnu og hvatningu með margskonar stuðningi við verkefnið.