Styðja hugmyndir um 15-20 hjúkrunarrými á Garðvangi
Bæjarráð Reykjanesbæjar styður hugmyndir um 15-20 rúma hjúkrunareiningar á Garðvangi í Garði.
Bæjarráð Reykjanesbæjar styður hugmyndir um 15-20 rúma hjúkrunareiningar á Garðvangi í Garði. Stuðningurinn er í ljósi þess að með því fjölgar hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum um sömu tölu og bætist við þau hjúkrunarrými sem nú þegar eru til staðar í Víðihlíð í Grindavík, Hlévangi í Keflavík og væntanleg 60 rými á Nesvöllum. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Dvalarheimila á Suðurnesjum sem tekin var fyrir á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Lítil fjölgun rýma með tilkomu Nesvalla
Með tilkomu nýs 60 rúma hjúkrunarheimilis á Nesvöllum mun hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum einungis fjölga lítillega þar sem ríkisvaldið hefur ákveðið að a.m.k. 35 rými færist frá DS yfir á hið nýja hjúkrunarheimili á Nesvöllum. Ennfremur munu þeir hjúkrunarsjúklingar sem tímabundið voru vistaðir á HSS einnig flytjast yfir á Nesvelli.
Vilja endurbætur á aðstöðu og húsnæði
Einnig telur bæjarráð Reykjanesbæjar nauðsynlegt að til þess að unnt sé að hefja starfsemi 15-20 rúma hjúkrunardeildar á Garðvangi til framtíðar verði að fara í verulegar endurbætur á húsnæði og aðstöðu væntanlegra heimilismanna í samræmi við kröfur sem gerðar eru til slíkra heimila í dag. Ennfremur með hliðsjón af skýrslu Landlæknisembættisins um Garðvang sem kom fram fyrir 3 árum. Skynsamlegt sé að fara svokallaða „leiguleið“ við endurbætur á húsnæði Garðvangs og þurfi því ríkisvaldið að samþykkja þær framkvæmdir og endurgreiðslu á 85% kostnaði í gegnum leigusamning um húsnæðið til næstu 40 ára. Sveitarfélagð Garður (og eftir atvikum Sandgerðisbær) þurfi á móti að bera ábyrgð á framkvæmdum og kostnaði sem ekki greiðist í gegnum leiguleið ríkisins.
Garður beri rekstrarlega ábyrgð
Ef ríkisvaldið sé tilbúið til þess að samþykkja aukinn fjölda hjúkrunarrýma á Suðurnesjum, og að ganga til samninga um endurbætur á húsnæði Garðvangs og endurleigu á húsnæðinu, sé ennfremur nauðsynlegt að Sveitarfélagið Garður (og eftir atvikum Sandgerðisbær), sem framkvæmdaraðili verkefnisins, beri rekstrarlega ábyrgð til framtíðar á hugsanlegri hjúkrunardeild á Garðvangi með sama hætti og Reykjanesbær gerir gagnvart rekstri á hjúkrunarheimilinu á Nesvöllum.
Búsetumál verði skýr
Bæjarráð Reykjanesbæjar telur afar mikilvægt að búsetumál þeirra íbúa sem nú búa á Garðvangi og munu flytjast yfir á Nesvelli 1. mars 2014 séu skýr. Sveitastjórnarmenn megi ekki á nokkurn hátt skapa óvissu um jafn mikilvægan þátt og húsnæðismál íbúanna, sér í lagi þeirra sem sökum öldrunar þarfnast orðið mikillar aðstoðar hjúkruanrfólks.